Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Flugfreyjur segja að um afarkosti hafi verið að ræða

20.05.2020 - 16:26
Mynd með færslu
Flugfreyjur hafa sýnt samninganefnd sinni stuðning fyrir framan Karphúsið. Mynd: Guðmundur Bergkvist
Tilboðið, sem samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands, hafnaði á samningafundi með Icelandair í dag, var sett fram sem afarkostir. Þetta segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, starfandi formaður Flugfreyjufélags Íslands. Hún segist ekki skilja hvað Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, eigi við þegar hann tali um að leita þurfi annarra leiða. Flugfreyjur séu áfram tilbúnar til viðræðna.

Samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands hafnaði dag tilboði Icelandair, sem félagið ítrekaði á fundi samninganefnda félaganna í dag. Samningafundi hjá ríkissáttasemjara sem hófst klukkan hálf níu í morgun var slitið á þriðja tímanum í dag.

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir er starfandi formaður Flugfreyjufélags Íslands. 

„Það tilboð var sett fram sem nokkurs konar afarkostir. Það var keimlíkt því tilboði sem FFÍ hafði áður hafnað eftir einróma afstöðu félagsmanna okkar,“ segir Guðlaug. 

„Get ekki skilið hvað í þessu á að felast“

Í  tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér eftir að fundinum var slitið er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair að nú þurfi að leita annarra leiða. 

„Ef hann er þarna, undir rós, að beita hótunum um stofnun nýs stéttarfélags, þá eru stéttarfélögin félög launafólks sem njóta verndar í stjórnarskrá og atvinnurekendum er óheimilt að skipta sér af. Þannig að ég get ekki alveg skilið hvað í þessu á að felast,“ segir Guðlaug.

Eru þetta vonbrigði? „Þetta eru viss vonbrigði þar sem samninganefnd Flugfreyjufélagsins hefur einsett sér að sýna ríkan samningsvilja og verið tilbúin til að skoða ýmislegt. Meðal annars lögðum við fram tilboð sem byggir á því tilboði sem þau lögðu fram í dag og því var hafnað.“ 

Geturðu sagt í hverju það tilboð fólst? „Það samanstóð af eftirgjöfum á ýmsum þáttum, sem eykur möguleikana á hagræðingu og mjög hóflegar kröfur um launahækkanir.“

Bíða eftir kalli ríkissáttasemjara

Guðlaug segir að flugfreyjur séu tilbúnar í áframhaldandi samtal við Icelandair. „Áfram stöndum við á því að við erum tilbúin í samtal, til að hitta mótaðila okkar og ræða málin. Við bíðum eftir kallinu frá ríkissáttasemjara.“

Lýst yfir vonbrigðum í yfirlýsingu

Flugfreyjufélag Íslands sendi frá sér yfirlýsingu síðdegis í dag. Þar er lýst yfir miklum vonbrigðum með „einarða og óbilgjarna afstöðu Icelandair“ í samningaviðræðunum. „Þrátt fyrir ríkan samningsvilja FFÍ og ítrekuð móttilboð hefur Icelandair haldið sig að mestu við upphaflegt tilboð sitt og sýnt lítinn vilja til samninga,“ segir í yfirlýsingunni.

„Icelandair lagði mánudaginn 18. maí enn á ný fram tilboð sem er keimlíkt því sem áður hefur verið hafnað með skýrri afstöðu félagsmanna FFÍ. Samninganefnd FFÍ lagði fram móttilboð í dag, 20. maí og gerir sér fulla grein fyrir alvarleika stöðunnar sem nú er uppi.

Á undanförnum vikum hefur samninganefnd FFÍ ítrekað lagt fram tilboð til að koma til móts við fyrirtækið af fullri einlægni og með eindreginn samningsvilja. Tilboðið sem var lagt fram í dag fól m.a. í sér aukið vinnuframlag, eftirgjöf á flug-, vakt- og hvíldartímaákvæðum sem gefa fyrirtækinu möguleika til verulegrar hagræðingar, aukins sveigjanleika og vaxtar. Fyrirtækið hefur hins vegar á engum tímapunkti verið tilbúið til viðræðna á raunhæfum grunni,“ segir í yfirlýsingunni.

Niðurstaða náist ekki fram með afarkostum

Þar segir að niðurstaða við samningaborð í kjaradeilu náist ekki með afarkostum frá öðrum aðilanum, heldur í samtali á jafnræðisgrundvelli. „FFÍ neitar að láta hræðsluáróður forsvarsmanna Icelandair beygja félagsmenn í duftið. FFÍ hefur ríkan stuðning norrænu- og evrópsku flutningamannasamtakanna og íslenska verkalýðshreyfingin stendur þétt við bakið á FFÍ enda varðar sú staða sem nú er uppi allt launafólk á Íslandi,“ segir í yfirlýsingu Flugfreyjufélags Íslands og þar er samningsvilji félagsins ítrekaður og þess óskað að slíkt hið sama hefði verið uppi á borðum hjá viðsemjendum, „sem því miður fara fram með einhliða yfirlýsingar og minni samningsvilja en gefið er í skyn á opinberum vettvangi,“ að því er segir í yfirlýsingunni.