ASÍ fordæmir Icelandair og hótar samúðaraðgerðum

20.05.2020 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Alþýðusamband Íslands, ASÍ, mótmælir harðlega þeim áformum Icelandair, sem greint var frá í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu í dag, um að stofna nýtt stéttarfélag flugfreyja og að láta reyna á forgangsréttarákvæði kjarasamnings Flugfreyjufélags Íslands, FFÍ fyrir félagsdómi, náist ekki samningur í kjaradeilu Icelandair og FFÍ. ASÍ bendir á að aðildarfélögum þess sé heimilt að grípa til samúðaraðgerða með flugfreyjum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá ASÍ. Þar segir að tilgangurinn virðist vera sá einn að hafa áhrif á starfsemi FFÍ og reka fleyg í samstöðu félagsmanna. Þær byggi ennfremur á mikilli vanþekkingu á íslenskri og alþjóðlegri vinnulöggjöf og kjarasamningi FFÍ.

Í yfirlýsingunni segir að Icelandair geti ekki sjálft stofnað til eða haft frumkvæði að stofnun stéttarfélags. Icelandair sé hollt að hafa í huga að aðildarfélög ASÍ hafi heimild til að veita Flugfreyjufélaginu stuðning í yfirstandandi kjaradeilu með boðun samúðarvinnustöðvana.

Icelandair eigi ekkert tilkall til opinberra sjóða

„Raungerist fyrrnefndar vangaveltur á Icelandair ekkert tilkall til stuðnings úr opinberum sjóðum eða viðbótarhlutafjár úr lífeyrissjóðum launafólks. ASÍ krefst þess að stjórnvöld stígi fram og taki af öll tvímæli um að þau hyggist ekki styðja ólögmætt og ósiðlegt athæfi Icelandair,“ segir í yfirlýsingu ASÍ.

Þar er ennfremur haft eftir Drífu Snædal, forseta ASÍ, að framganga Icelandair í samningaviðræðum við flugfreyjur hafi verið með ólíkindum. Hún sé til þess fallin að draga úr almennu trausti í garð félagsins. Verkalýðshreyfingin muni ekki sitja með hendur í skauti andspænis slíkum aðgerðum.