Ari Eldjárn tók ábreiðu af lagi HAM

Mynd: Gettu Betur / Gettu Betur

Ari Eldjárn tók ábreiðu af lagi HAM

20.05.2020 - 13:21
Í safni RÚV má finna marga góða gullmola. Þar á meðal má nefna tónlistaratriði frá Menntaskólanum í Reykjavík sem grínistinn Ari Eldjárn tók þátt í árið 2001 í spurningakeppninni Gettu Betur.

Lið Menntaskólans í Reykjavík og Borgarholtsskóla mættust þar í úrslitaviðureign í íþróttahúsinu Smáranum í Kópavogi. Logi Bergmann var spyrill þetta árið, Ármann Jakobsson var dómari og höfundur spurninga og Þóra Arnórsdóttir stigavörður. Þóra gat þó ekki verið með í útsendingu á úrslitakvöldinu svo systir Ármanns var fengin í hennar stað. Systir Ármanns er Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra en hún hafði áður verið stigavörður Gettu Betur.

Mynd með færslu
 Mynd: Gettu Betur
Ármann Jakobsson, Katrín Jakobsdóttir og Logi Bergmann

Tónlistaratriðin frá Menntaskólanum í Reykjavík voru yfirleitt af klassískum toga á þessu tímabili. Í myndskeiðinu hér fyrir ofan sést þegar MR-ingar brugðu út af vananum og tóku ábreiðu af þekktu lagi þungarokkssveitarinnar HAM, Musculus. 

„MR-ingar hafa komið með frábær tónlistaratriði hér ár eftir ár og flest af klassískum toga. Í þetta sinn er ekki vikið frá þeirri hefð því nú stíga á stokk og stilla saman strengi kammersveit MR og drengjakór Lærða skólans,“ segir Logi í kynningu atriðisins.

Í atriðinu leikur enginn annar en Ari Eldjárn á trommur. Í heimildarmyndinni Hinn íslenzki þursaflokkur, ræðir Ari hvernig hann kynntist þjóðlagasveitinni í gegnum elsta bróður sinn, Kristján heitinn Eldjárn. Ari segir þar að Þursaflokkurinn hafi verið honum innblástur og nokkru síðar hafi hann farið að spila á trommur.