Alltaf hægt að bæta árangur í umhverfismálum

20.05.2020 - 17:52
Mynd: Guðmundur Pálsson / RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, afhenti í dag verkfræðistofunni Eflu Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf í umhverfismálum á síðasta ári. Helga J. Bjarnadóttir, sviðsstjóri samfélagssviðs Eflu, segir fyrirtækið hafa lagt áherslu á umhverfismál allt frá stofnun.

„Við erum hjá Eflu búin að vinna mjög lengi að umhverfismálum, í rauninni alla tíð frá því að fyrirtækið var stofnað,” segir Helga í samtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2. Í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu kemur fram að Efla hafi frá upphafi leitast við að vera leiðandi í umhverfismálum, hvort sem er í eigin rekstri eða í framboði á umhverfisvænum lausnum. Umhverfisráðgjöf skipi stóran sess í þjónustu fyrirtækisins en Efla hefur aðstoðað á þriðja tug fyrirtækja við innleiðingu umhverfisstjórnunar. Þá hafi fyrirtækið rutt brautina fyrir ný úrræði í umhverfismálum umfram lagalegar kröfur, svo sem gerð vistferilsgreininga, ráðgjöf við vistvænar vottanir bygginga auk ýmissa lausna sem snúi að umhverfisverkfræði.

„Við erum með umhverfisstefnu og setjum okkur mælanleg markmið á hverju ári og vinnum svo í því að ná þeim markmiðum í okkar innra starfi, svona hefðbundið fyrir svona skrifstofu,” segir Helga. Hún segir Eflu einnig hafa verið kolefnishlutlaust fyrirtæki síðustu tvö árin. Einnig er lögð áherslu á að koma með góðar lausnir í umhverfismálum fyrir viðskiptavini. „Okkar hlutverk er svolítið að koma fram með góðar lausnir fyrir okkar viðskiptavini. Okkur finnst lausn ekki vera góð lausn eða fagleg nema að hún taki inn þennan umhverfisvinkil. Það hefur verið okkar áskorun á síðustu árum að gera það og vinna þannig að verkefnum, þannig að við horfum allt á hvernig verkefnið getur orðið ennþá betra með tilliti til umhverfismála,” segir Helga. 

Í rökstuðningi dómnefndar er talað um umhverfisstjórnun. Helga segir að umhverfisstjórnun snúist um að fyrirtæki átti sig á hvaða þættir í starfseminni valdi umhverfisáhrifum og í kjölfarið þurfi að marka stefnu og skilgreina markmið til að draga úr þessum áhrifum. „Það er mjög mikill þáttur í umhverfisstjórnun að gera stöðugt betur. Mæla árangurinn og setja sér strangari markmið og ná betri árangri árið eftir,” segir Helga.

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend

Sífellt fleiri fyrirtæki huga nú að umhverfismálum í sinni starfsemi og stefna mörg þeirra á að ná þeim árangri að verða kolefnishlutlaust. Það fer þó eftir fyrirtækjum hversu snúið það er. Efla hjálpar fyrirtækjum að ná þessum markmiðum. „Í rauninni þarf að safna upplýsingum um hvaða þættir það eru sem valda loftslagsáhrifum og magnsetja þá. Síðan að finna leiðir til að draga úr, það geta verið tæknilegar lausnir eða lausnir sem snúa að breyttu hegðunarmynstri,” segir Helga. Efla hefur verið kolefnishlutlaust síðustu tvö ár. Helga bendir einnig á að ávallt megi gera betur. „Það er alltaf hægt að finna nýjar leiðir, til dæmis eins og með pappír. Við höfum mælt pappírsnotkun til fjölda ára. Fyrst þegar við fórum að mæla pappírsnotkun vorum við með um 30 kg af pappír á starfsmann sem við vorum að nota. Í dag erum við komin niður í 4,6 kg. Þá er spurningin getum við gert betur? Já, ég myndi halda það.”

Efla hugaði einnig að umhverfisáhrifum þegar að höfuðstöðvar fyrirtækisins voru endurgerðarar, en þá var hugað að byggingarefni, hljóðvist, lýsingu og samgöngumátum með tilliti til umhverfisáhrifa.

Verðlaunagripinn, Kuðunginn, gerði listhópurinn Fischer sem er skipaður systkinunum Lilju, Ingibjörgu og Jóni Þór Birgisbörnum. Gripurinn er ekki aðeins skrautmunur því með því að setja snjallsíma inn í skúlptúrinn grípur kuðungurinn hljóðið sem spilast úr símanum og varpar því út í rýmið eins og hátalari. Þannig er leikið með samspil náttúru og tækni í hönnun. Efla öðlast einnig rétt til að nýta merki verðlaunanna í kynningu á starfsemi sinni.

Nánar var rætt við Helgu J. Bjarnadóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2

gudmundurp's picture
Guðmundur Pálsson
dagskrárgerðarmaður
orrifr's picture
Orri Freyr Rúnarsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi

Tengdar fréttir