250 milljónir frá ríkinu til eflingar Suðurnesja

Mynd með færslu
Reykjanesbær. Mynd úr safni. Mynd:
Ríkið hyggst verja 250 milljónum til að bæta þjónustu og efla sveitarfélög á Suðurnesjum. Um er að ræða 17 aðgerðir, meðal annars átak á vinnumarkaði, aukið verður við framboð menntunar, komið verður á átaki gegn heimilisofbeldi og heilbrigðisþjónusta á svæðinu verður bætt.

Fjárveitingin var kynnt í öðrum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar til að bregðast við efnahagslegum áhrifum COVID-19.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu -og sveitarstjórarráðherra, stofnaði starfshóp um stöðu sveitarfélaga á Suðurnesjum og var samantekt hópsins kynnt á fundi ríkisstjórnarinnar í gær. Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að vinna hópsins hafi fengið aukna þýðingu í kjölfar COVID-19 faraldursins. Mikil niðursveifla hafi orðið við brotthvarf WOWair og faraldurinn hafi leitt til hruns ferðaþjónustu á svæðinu. Atvinnuleysi þar stefni í 24%.

Markmið þessara aðgerða eru fjórþætt; Að auka samráð milli ríkis og sveitarfélaga um hagsmuni svæðisins, virkja jákvæðan vöxt fyrir efnahagslíf og samfélag, auka skilning á sérkennum og tækifærum svæðisins og loks að efla viðbragð við aðstæðum sem kalla á samstillingu og sameiginlegar aðgerðir opinberra aðila.

Auk fyrrgreindra aðgerða verður verkefnum hjá sýslumanninum á Suðurnesjum fjölgað, gerðar verða samfélagsrannsóknir, þekkingarstarfsemi verður efld og ýmis námsúrræði eins og til dæmis styttra nám, sumarnám og nám í Flugklasanum efld.

Þessar aðgerðir bætast við aðrar sértækar aðgerðir sem ákveðið hefur verið að ráðast í á svæðinu, þar sem hlutafé Isavia verður m.a. aukið um 4 milljarða og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja veittur 200 milljóna stuðningur.

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir