200 milljarða kostnaður í ár

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Bein útgjöld ríkissjóðs vegna mótvægisráðstafana við efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins nema ríflega hundrað milljörðum króna í ár. Að auki verða tekjur ríkisins 95 milljörðum króna lægri í ár en ráð var fyrir gert vegna heimilda fyrirtækja til að fresta skattgreiðslum fram á næsta ár. Óljóst er hversu mikill kostnaður ríkisins verður vegna ríkisábyrgða á lánum sem bankarnir veita fyrirtækjum en hann yrði að hámarki 45 milljarðar.

Þetta kom fram í yfirliti sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti ríkisstjórn í gær. Þar var lagt mat á kostnað við þá fjóra aðgerðapakka sem stjórnvöld hafa kynnt til sögunnar. Kostnaður ríkissjóðs í ár er samkvæmt því um 200 milljarðar, í beinum útgjöldum og frestuðum skatttekjum. 

Stærstur hluti beinna ríkisútgjalda vegna mótvægisaðgerða fellur til vegna hlutabótaleiðarinnar og vegna greiðslna ríkissjóðs á launum fólks á uppsagnarfresti. Þessir tveir liðir eru metnir á ríflega 60 milljarða króna. 

Forsvarsmenn sveitarfélaga og stjórnarandstöðuþingmenn hafa kallað eftir því að stjórnvöld styðji við bakið á sveitarfélögum sem verða fyrir miklu tekjutapi. Í grein á vef Stjórnarráðsins segir að faraldurinn hafi mun meiri áhrif á fjárhag ríkissjóðs en sveitarfélaganna. Þar er vísað til þess að ríkið beri hitann og þungann af mótvægisaðgerðum. Þetta á að leiða til betri stöðu heimila og fyrirtækja sem styrki um leið helstu tekjustofna sveitarfélaganna.