1,5 milljarðar tapist á hverjum degi án ferðamanna

20.05.2020 - 14:49
Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Á hverjum degi á meðan engir ferðamenn koma til landsins tapast um 1,5 milljarðar króna í gjaldeyristekjur, segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður stjórnar Samtaka ferðaþjónustunnar. Hún var gestur upplýsingafundar almannavarna síðdegis.

Bjarnheiður segir að engum hefði getað látið sér detta í hug að það myndi nánast slokkna á ferðaþjónustu víða um heim í mars.  

Ferðaþjónusta er stærsta útflutningsgrein Íslands og í venjulegu árferði stærri en sjávarútvegur og álflutningur til samans, segir Bjarnheiður. „Það segir sig sjálft að staða ferðaþjónustufyrirtækjanna í landinu er ekkert til að hrópa húrra fyrir enda skapast gríðarlegur lausafjárvandi þegar skyndilega skrúfast fyrir allt tekjustreymi en skuldbindingar og fastur kostnaður stendur eftir.“ 

Samtök ferðaþjónustunnar hafi lagt áherslu á aðgerðir stjórnvalda til að koma ferðaþjónustufyrirtækja í var svo áfram verði hér starfandi fyrirtæki um leið og ferðamenn geta og vilja koma til landsins. „Það yrði mikill skaði sem hlytist af því ef að lunginn af ferðaþjónustufyrirtækjunum yrði gjaldþrota því þá myndum við tapa dýrmætum tíma, þekkingu, reynslu, viðskiptasamböndum, mannauði og ekki hvað síst fjármunum þegar upp yrði staðið.“

Björgunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar séu árangursríkar fyrir langflest ferðaþjónustufyrirtæki og gefi von um að stór hluti þeirra komist nokkurn veginn í heilu lagi í gegnum þennan tíma. 

Ferðaþjónustan geti farið að horfa fram á við en óvissuþættir séu margir; útfærsla Íslands, reglur annarra ríkja, ferðavilji fólks og flugsamgöngur. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV