Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vonarstjörnurnar sem urðu hornreka

Mynd með færslu
Harry og Meghan Mynd: RÚV
Þau voru kölluð ferskur andblær. Andlit nútíma konungdæmis, táknmynd þess að breska konungsfjölskyldan væri í takt við breyttan tíðaranda. Nú eru þessar fyrrum vonarstjörnur deyjandi heimsveldis hornreka í frægustu fjölskyldu heims. Líf hertogahjónanna af Sussex, þeirra Harry og Meghan, hefur tekið stefnu sem engan hefði órað fyrir þegar brúðkaupsklukkurnar í kapellu heilags Georgs í Windsor hringdu á sólríkum maídegi fyrir sléttum tveimur árum.

Síðan þá hafa þau misst konunglega tignartitla sína, flutt úr landi, fyrst til Kanada og nú til Bandaríkjanna og staðið í hatrömmum deilum við bresku pressuna sem ekki sér fyrir endann á. 

Britain's Prince Harry and Meghan Markle stand, prior to the start of their wedding ceremony, at St. George's Chapel in Windsor Castle in Windsor, near London, England, Saturday, May 19, 2018. (Dominic Lipinski/pool photo via AP)
Á brúðkaupsdaginn 19. maí 2018 Mynd: AP Images - RÚV
Hertogahjónin af Sussex

Femínisti og mannréttindafrömuður

Þegar heyrinkunnugt varð að rauðhærði óþekktaranginn, Harry Bretaprins sonur Karls ríkisarfa og Díönu heitinnar prinsessu, væri í tygjum við Meghan Markle, fráskilda leikkonu af blönduðum kynþætti sem að auki var nokkrum árum eldri en hann og yfirlýstur femínisti og baráttukona fyrir mannréttindum, þótti það til marks um breytta tíma í bresku konungsfjölskyldunni.

Og þegar tilkynnt var um trúlofun þeirra og væntanlegt brúðkaup var talið að það myndi styrkja stöðu konungsfjölskyldunnar innan breska Samveldsins þar sem stór hluti íbúa er yngri en 30 ára og margir af öðrum kynþætti en þeim hvíta. 

Þau hittust fyrst á blindu stefnumóti sumarið 2016 og í lok október sama ár fóru fréttir þess efnis, að Harry Bretaprins ætti nýja kærustu, að leka út. Í nóvember tilkynnti hann opinberlega að þau Meghan væru kærustupar og biðlaði um leið til pressunnar að sýna henni virðingu. Hann sagðist hafa áhyggjur af öryggi hennar og  gæti ekki fallist á að óvægin fjölmiðlaumfjöllun væri það gjald sem hún yrði að greiða fyrir að vera kærasta prins. 

epa06737624 An undated handout photo made available by the British Royal Mail showing the First Class stamp, one of a set of stamps issued by the Royal Mail to celebrate the forth coming wedding of Britain's Prince Harry and Meghan Markle. The
 Mynd: EPA

Ítrekaðar uppákomur Markle-fjölskyldunnar

Meghan var kynnt fyrir Elísabetu Englandsdrottningu, ömmu Harrys, og nánustu fjölskyldu hans. Í viðtölum bar hún þeim vel söguna og sagði framkomu þeirra í sinn garð hafa einkennst af hlýju. Trúlofun þeirra var tilkynnt í nóvember 2017 og þá tilkynnt um væntanlegt brúðkaup þeirra í maí vorið eftir.

Reyndar vörpuðu ítrekaðar uppákomur tengdar föður og systkinum Meghan nokkrum skugga á gleðina. Þau voru fús til að deila neikvæðum skoðunum sínum á brúðinni verðandi með öllum sem heyra vildu og slík framkoma þótti ekki viðeigandi fyrir ættmenni konu sem átti að giftast inn í bresku konungsfjölskylduna.

Svo fór að faðir Meghan var ekki viðstaddur brúðkaupið en tvennum sögum fór af ástæðu þess; ýmist að hann væri veikur eða að honum hefði ekki verið boðið. 

Versnandi samskipti

Það var skrautsýning eins og bresku konungsfjölskyldunni er lagið. Öllu tjaldað til og tugmilljónir manna um víða veröld fylgdust með brúðkaupinu. Ýmis frægðarmenni voru meðal brúðkaupsgesta; Oprah Winfrey, Beckham-hjónin, Amal og George Clooney, framtíðin blasti við ungu hjónunum, þau tóku til óspilltra málanna við að sinna ýmsum góðgerðarmálum og ekki minnkaði hamingjan í október þegar þau tilkynntu um að þau ættu von á barni. 

Þeim fæddist sonur 6. maí í fyrra, en þá höfðu samskipti þeirra við bresku pressuna versnað verulega. Þau höfðu, ólíkt flestum öðrum verðandi foreldrum í konungsfjölskyldunni, lítið viljað ræða við blaðamenn um meðgönguna og væntingar sínar til foreldrahlutverksins og steininn þótti taka úr þegar ekki sást í andlit unga prinsins á fyrstu myndunum sem birtust opinberlega af honum. 

epa06741597 Royal wedding merchandise on sale at a store in Windsor, Britain, 16 May 2018. Windsor is preparing for the royal wedding of Prince Harry and Meghan Markle on 19 May.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA
Mikið var um dýrðir fyrir tveimur árum þegar brúðkaup Harry og Meghan fór fram.

Þau voru undir linnulausri gagnrýni; meðal annars fyrir að boða umhverfisvernd en fara síðan allra sinna ferða í einkaþotum. Nafnið sem þau gáfu syni sínum, Archie Harrison, þótti ekki nógu konunglegt. Deilur þeirra, og síðar málsóknir, við bresku slúðurpressuna þóttu ekki sæmandi fólk í þeirra stöðu og steininn þótti taka úr þegar Meghan kærði útgefendur Mail of Sunday fyrir að birta bréf hennar til föðurs síns í leyfisleysi, en í bréfinu biður hún hann um að hætta að ræða einkahagi hennar við blaðamenn. 

Og svo varð Megxit...

Heimildamynd um ferð hjónanna til Afríku var sýnd í október í fyrra og þar sagðist Meghan eiga erfitt með að vera í sviðsljósinu og gat vart haldið aftur af tárunum. Í sömu mynd sagði Harry að samskipti hans og Vilhjálms hefðu verið stirð um hríð og í kjölfarið komust á kreik ýmsar sögusagnir um stöðu hertogahjónanna innan konungsfjölskyldunnar en engan hefði líklega getað órað fyrir því sem gerðist síðan í janúar síðastliðnum þegar þau tilkynntu að þau segðu sig frá öllum opinberum embættisskyldum í þágu bresku konungsfjölskyldunnar. Þau hygðust verða fjárhagslega sjálfstæð og sögðust ætla að verja tíma sínum jafnt milli Bretlands og Ameríku.

Þessi ákvörðun, sem kölluð hefur verið Megxit, vakti hörð viðbrögð, ekki síst þegar opinbert varð að þau hefðu ekki ráðfært sig við aðra í fjölskyldunni áður en tilkynnt var um hana opinberlega. 

Nokkrum dögum síðar tilkynnti breska hirðin að þau myndu missa titla sína og yrðu ekki lengur hans og hennar konunglega hátignir. Þau halda titlum sínum sem hertogi og hertogaynja af Sussex, en þá titla fengu þau frá ömmu Harrys á brúðkaupsdaginn. 

Þá eiga þau að endurgreiða upphæðina sem fór í að innrétta glæsihýsi sem þau eiga í Windsor  og munu ekki þiggja greiðslur fyrir þau störf sem þau inna af hendi fyrir konungsfjölskylduna. Breska hirðin meinaði þeim ennfremur að nota nafnið Sussex Royal sem vörumerki fyrir góðgerðarsamtök og ýmsan varning sem þau hugðust framleiða undir þessu nafni. Í staðinn hafa þau valið nafnið Archewell í höfuðið á Archie litla. 

 

epaselect epa06649754 Britain's Prince Harry and Meghan Markle visit Bath University, in Bath, Britain, 06 April 2018, to view hopeful candidates for the UK Team Trial for the Invictus Games in Sydney in 2018. The couple will get married on 19 May.
Á mörgu hefur gengið í lífi Meghan og Harry. Mynd: EPA

Skrifa nú bók í Kaliforníu

Í kjölfar þessa fluttu þau til Kanada, en stöldruðu þar stutt við og hafa nú sest að í Kaliforníuríki þar sem þau vinna að bók sinni sem koma mun út á næstunni undir heitinu Finding Freedom. Þar sem búist er við að þau greini frá öllu því sem gerðist á bak við tjöldin þegar þau ákváðu í janúar síðastliðnum að segja skilið við konunglegar skyldur sínar. Í umfjöllun um hana á Amazon segir að þar séu „ýmsar rangfærslur um hjónin leiðréttar“. 

Deilum þeirra við fjölmiðla hefur síst linnt, en fyrir skömmu sendu þau opið bréf til ritstjóra The Sun, Daily Mail, Express og Mirror þar sem þau segjast ekki vilja eiga nein samskipti við blöðin og þau muni ekki svara viðtalsbeiðnum frá blaðamönnum þeirra.

Staða þeirra þykir óljós og margur Bretinn klórar sér í kollinum. Gjarnan hefur verið haft á orði að helsta ástæðan fyrir því að Elísabet Englandsdrottning njóti mikillar hylli sé að þegnar hennar skynji sterkt að hún setji skylduna ofar persónulegum duttlungum sínum. Það hafi hertogahjónin af Sussex ekki gert og því hafi farið sem fór. „Líklega voru stærstu mistökin að halda að þau gætu verið konungleg og þau sjálf á sama tíma,“ segir í umfjöllun The Guardian. „Að halda að þau gætu stjórnað eigin örlögum.“