Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Tveir skiluðu meðmælendalistum í Vestfirðingafjórðungi

19.05.2020 - 16:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðni Th. Jóhannesson forseti og Guðmundur Franklín Jónsson athafnamaður höfðu skilað meðmælendalistum til kjörstjórnar norðvesturkjördæmis á þriðja tímanum í dag. Að sögn Inga Tryggvasonar formanns yfirkjörstjórnar verður farið yfir listana strax á morgun en hann hafði ekki fengið tilkynningar um stöðu mála hjá öðrum frambjóðendum.

Framboð til embættis forseta Íslands teljast ekki gild fyrr en skilað hefur verið tilskildum fjölda meðmælenda, 1500 til 3000 á landsvísu en ákveðið hlutfall undirskrifta þarf að berast úr hverjum landsfjórðungi. Úr Vestfirðingafjórðungi ber frambjóðendum að skila minnst 59 meðmælendum en 117 mest.  

Fimm höfðu lýst yfir áhuga á framboði, þeir Arngrímur Friðrik Pálmason, Axel Pétur Axelsson, Guðmundur Franklín Jónsson, Guðni Th. Jóhannesson, Kristján Örn Elíasson og Magnús Ingiberg Jónsson. Magnús dró framboð sitt til baka 16. maí og Kristján Örn fyrr í dag og lýsti jafnframt yfir stuðningi við framboð Guðmundar Franklíns.  

Nái aðrir frambjóðendur en forseti að skila tilskildum fjölda meðmælenda í öllum landsfjórðungum verður það í fjórða sinn sem sitjandi forseti háir kosningabaráttu. Það gerðist fyrst í forsetatíð Vigdísar Finnbogadóttur árið 1988 og tvisvar á tíma Ólafs Ragnars Grímssonar; fyrst 2004 og aftur 2012.  

Axel Pétur Axelsson kvaðst í samtali við fréttastofu vera nokkuð keikur og að mikið hafi bæst við af undirskriftum í dag. Hann telur að ólíkur frestur á undirskriftum rafrænt og á pappír sé mismunun og hyggst hann kæra þá tilhögun til Hæstaréttar.  

Sömuleiðis var baráttuhugur í Arngrími Pálmasyni sem kvaðst ekkert vera að flýta sér og hann væri bjartsýnn á framhaldið. Hann sagðist jafnframt ætla að halda framboðinu til streitu, að hann myndi aldrei draga það til baka.  

Frestur til að skila rafrænum listum rennur út á miðnætti í kvöld, 19. maí en frambjóðendur hafa tíma til að skila undirrituðum listum til miðnættis næstkomandi föstudag, 22. maí. Það er fimm vikum fyrir kjördag 27. júní næstkomandi.