Sóttvarnalæknir leggur til við heilbrigðisráðherra að slakað verði á samkomutakmörkunum á mánudaginn. Lagt er til að heimilt verði að hafa bari, skemmtistaði og spilasali opna en þó ekki lengur en til klukkan ellefu á kvöldin.
Þeir sem búa við uppsafnaða þörf fyrir að stæla vöðvana geta tekið gleði sína á ný á mánudaginn því þá verður leyfilegt að opna líkamsræktarstöðvarnar að nýju með ákveðnum takmörkunum, þó svipað og í sundlaugunum. Núna má í sundlaugarnar bara koma helmingur af leyfilegum hámarksfjölda gesta.
Núna mega mest koma saman fimmtíu manns í einu en á mánudaginn verður mikil breyting á, því þá mega tvö hundruð manns koma saman.
Þá er einnig lagt til að tveggja metra reglan verði endurskilgreind þannig að ríkari áhersla verði á að hún sé virt þar sem lífsnauðsynleg þjónusta er veitt, til að mynda í apótekum og hjá sýslumönnum. Þar sem veitt er þjónusta sem ekki telst lífsnauðsynleg, eins og í leikhúsum, verði ekki jafnrík krafa um tveggja metra regluna. Tveggja metra reglan eigi þó að vera grunnviðmið í samskiptum. Lagt er til að fólki, sem þarf að fara gætilega, sé gert kleift að sækja þjónustu og halda tveggja metra fjarlægð.
Áfram leggja almannavarnir áherslu á að fólk hugi að sóttvörnum og hreinlæti.