Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Talið að um 15 hektarar hafi brunnið

19.05.2020 - 12:43
Mynd: Gísli Einarsson / RÚV
Ekki dugði að beita hefðbundnum aðferðum til að ná tökum á sinubruna í Norðurárdal í nótt. Eldur logaði í mosa og kjarrgróðri í hrauni milli Norðurár og þjóðvegarins. Heiðar Örn Jónsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri Borgarbyggðar, segir að slökkvistarf hafi tekið langan tíma en gengið vel.

Talið er að um 15 hektarar hafi brunnið en á annað hundrað slökkviliðsmanna og björgunarfólks barðist við eldana við krefjandi aðstæður í nótt.

Heiðar Örn segir að tilkynning hafi borist um sinubruna klukkan sex í gærkvöld. Eldurinn hafi síðan borist í mosa og kjarr í hrauni. Slökkviliðið hafi sett upp ákveðið kerfi með varnarlínum og tekist að ráða niðurlögum eldsins. Klukkan sex í morgun hafði tekist að slökkva í síðustu glæðunum. 

Mynd: Gísli Einarsson / RÚV
Sigríður Dögg Auðunsdóttir fréttamaður ræddi við Heiðar Örn Jónsson, aðstoðarslökkviliðsstjóra Borgarbyggðar í hádegisfréttum.