Sýnir feðraveldinu og eineltishrottum fingurinn

Mynd: Wikimedia commons / Wikimedia Commons

Sýnir feðraveldinu og eineltishrottum fingurinn

19.05.2020 - 13:33

Höfundar

Fiona Apple var beitt grófu kynferðisofbeldi þegar hún var aðeins 12 ára. Hún hefur glímt við átröskun og geðraskanir og átt í stormasömu ástarsambandi við nafntogaða einstaklinga sem hún vill sem minnst vita af í dag. Á nýjustu plötu tónlistarkonunnar skýtur hún föstum skotum á fortíðina, feðraveldið og ofbeldismenningu og gagnrýnendur halda ekki vatni af hrifningu.

Skrýtipopparinn og stórborgarmærin Fiona Apple sendi frá sér á dögunum nýja breiðskífu sem nefnist Fetch the Boltcutters eða Sækið keðjuklippurnar. Platan geymir þrettán lög sem eru hrá og tilfinningaþrungin en leikgleðin skín í gegn á þessari heimagerðu plötu sem er öll tekin upp í stúdíói Fionu. Hún er því skreytt ýmsum umhverfishljóðum eins og reglulegri hundsgá og banki í húsgögn. Platan hefur fengið svakalegar viðtökur og er meðal annars sú fyrsta í tíu ár sem fær fullt hús stiga á Pitchfork-vefnum.

Fiona, sem er fædd 1977, var aðeins nítján ára þegar hún sló í gegn með fyrstu plötunni sem nefnist Tidal. Henni var líkt við tónlistarkonur á borð við Kate Bush, Tori Amos og PJ Harvey. Hún er persónuleg í laga- og textasmíð sinni og hefur ekki farið í grafgötur með það að ævi hennar hefur verið þyrnum stráð. Sumir hafa sagt að platan sé sannkölluð uppgjörsplata og að þarna sé kona að gefa feðraveldinu á baukinn. Hún hefur til dæmis tjáð sig um hrottalega nauðgun þegar hún var aðeins 12 ára, átröskun sem hún þróaði með sér í kjölfarið og alvarlega kvíðaröskun sem hún hefur glímt við. Fyrrum ástmaður hennar, sjónhverfingamaðurinn David Blane, er einn af þeim sem rataði í svarta bók Jeffreys Epsteins. Samband hennar og leikstjórans Pauls Thomas Anderson var stormasamt og tjáði hún sig um það við The New Yorker að hann hefði ekki beitt hana líkamlegu ofbeldi heldur þeytt mublum í átt að henni og hreytt í hana fúkyrðum á meðan þau voru saman, bæði í mikilli neyslu. Hún er líka opinská með það að annar fyrrum elskhugi, kynferðisbrotamaðurinn og grínistinn Louis CK, sé ekki hátt skrifaður í hennar bókum. Áhrifa þessa alls má gæta á nýrri plötu sem er í senn harmþrungin og kankvísleg. Heiða Hellvar listamaður og myndlistarmennirnir Anna Rún Tryggvadóttir og Jón Óskar hlýddu á plötuna og ræddu um hana í Lestarklefanum. Þau voru öll stórhrifin en Heiða segist ekki sammála því að feðraveldið sé öðru fremur skotmarkið, þó ljóst sé að Fiona Apple skjóti föstum skotum á það, heldur baunar hún líka á stelpurnar sem lögðu hana í einelti í grunnskóla.

„Hún er bara að skjóta á heiminn og skjóta á aðrar konur. Þetta snýst ekki bara um konur á móti körlum, hún er að díla við sársauka úr alls konar áttum til dæmis að henni var nauðgað. En hún er líka að díla við leiðinlegu stelpurnar sem tóku hana fyrir í skóla,“ segir Heiða. Fiona sé einn þeirra listamanna sem finnist hún ekki passa við heiminn en í staðinn fyrir að reyna að aðlaga sig tekur hún u-beygju í sköpun, frumlegheitum og krafti. „Hún hafði farið framhjá mér þessi plata,“ segir Anna Rún sem hlustaði á fyrstu plötu Fionu þegar þær voru báðar um tvítugt. „Núna er hún 42 ára og maður stendur öðruvísi í fæturna en ég fékk algjöra nostalgíu í fyrri plötuna. Kannski því þegar ég var að hlusta tvítug rímaði hennar heimur við minn.“ Hún segir plötuna gríðarlega sterka. 

Jón Óskar þekkti nafn Apple ekki en strax við fyrstu hlustun fannst honum hann þekkja New York-hljóminn á plötunni. „Ég þekkti strax hljóðheiminn. Hún er alin upp í New York og hann er svipaður og finnst hjá Lou Reed, Velvet Underground, Laurie Anderson, Susan Vega og fleiri. Svo er hún alltaf á barmi taugaáfalls eins og PJ Harvey,“ segir hann.  „Ég tengdi einmitt við New York og auðvitað er Patti Smith þarna líka,“ segir Heiða.

Það hefur verið talað um að platan sé að einhverju leyti rökrétt afsprengi #metoo bylgjunnar og Arna Rún tekur undir það. „Hún hefur fjallað um svipuð viðfangsefni alla tíð og allt í einu kristallast það,“ segir hún. „Í samtímanum fær það nýtt samhengi. Þessi rífandi viðkvæmni er svo hrá og opinberun tilfinningalífsins gefur manni gæsahúð.“

Heiða tekur undir gæsahúðina en bendir að lokum á að platan verði betri við hverja hlustun. Hún hvetur hlustendur til að hlusta á hana alla oftar en einu sinni, oftar en tvisvar og að minnsta kosti einu sinni enn. Hér má hlýða á alla plötuna:

Rætt var um Fetch the boltcutters Fionu Apple í Lestarklefanum.

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Bára tilnefnd sem tónskáld ársins í Danmörku

Tónlist

„Tæki því sem hrósi ef Kellogg's færi í mál við mig”