
Stúdentar krefjast nærri fjögurra milljarða frá ríkinu
Stúdentar voru sviptir rétti til atvinnuleysisbóta í námshléum árið 2010 en áfram var haldið að taka tryggingagjald af launum þeirra.
Það á við séu námsmenn skráðir í meira en tíu eininga nám. Á hinn bóginn segir Isabel Alejandra Diaz forseti Stúdentaráðs að þeir séu í þröngri stöðu því Lánasjóður íslenskra námsmanna krefjist að stúdentar ljúki 22 einingum til að eiga rétt á lágmarksframfærsluláni til níu mánaða. Þannig falli þeir milli kerfa og njóti ekki jafnræðis, segir Isabel.
Hún segir að stúdentar vinni launuð störf að meðaltali um 26 stundir á viku auk námsins sem sé auðvitað full vinna líka. Margir leggi fé til hliðar fyrir komandi námsár. Stúdentar treysta á aðra innkomu en námslán þrjá mánuði ársins og krefjast nú aðgangs að sama öryggisneti og annað fólk á vinnumarkaði. Að sögn Isabel er ekki raunhæfur kostur fyrir námsmenn að vera án innkomu yfir sumartímann.
Isabel segir Stúdentaráð vilja með kröfunni vekja stjórnvöld til umhugsunar um stöðu námsmanna. Hún bendir á að þau 3400 störf sem standi námsmönnum til boða í sumar muni langt í frá gagnast öllum enda séu um 30 þúsund um hituna.