Samferðamenn slösuðu konunnar reyndust úrvinda

19.05.2020 - 23:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Björgunarsveitarmenn frá Höfn í Hornafirði eru nú að fylgja samferðamönnum konunnar sem slasaðist á fæti á Hvannadalshnjúk fyrr í dag. Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti konuna um átta leytið í dag og flutti hana til Reykjavíkur og skömmu seinna óskuðu samferðamenn hennar eftir aðstoð björgunarsveita þar sem þeir voru uppgefnir.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörg að hópurinn sé nú á leið yfir jökulbreiðuna í fylgd björgunarsveitarfólks og ætti hann að vera kominn niður af jöklinum í kringum miðnætti.

Þá voru björgunarsveitir í Reykjavík kallaðar út til að flytja slasaðan mann niður af Úlfarsfelli. Því verkefni lauk rétt fyrir ellefu en það voru sjúkraflutningamenn sem óskuðu eftir aðstoð björgunarsveitarinnar.