Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Örorkubætur þyrftu að vera 400 þúsund

19.05.2020 - 17:08
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Formaður Öryrkjabandalagsins segir að öryrkjar hafi gleymst við gerð kjarasamninga. Hún vill að samningar verði ekki kláraðir fyrr en kjör öryrkja hafa verið skoðuð. Hún telur æskilegt að örorkubætur hækki í 400 þúsund krónur á mánuði.

Formenn stærstu samtaka launafólks, ASÍ, BHM, BSRB, Kennarasambandsins auk formanns Öryrkjabandalagsins, settust niður í dag og skrifuðu undir sameiginlega stuðningsyfirlýsingu um bætt lífskjör öryrkja og kröfur þeirra. Þeir vilja að lágmarksframfærsla öryrkja verði hækkuð, dregið verði úr skerðingum bóta vegna annarra tekna og að störf verði í boði fyrir öryrkja. 

Hefur öryrkjum ekki verið sinnt?

Þýðir þessi undirritun þá að verkalýðshreyfingin hafi ekki sinnt kjörum öryrkja í sínum kjarasamningum? Drífa Snædal, forseti ASÍ, bendir á að kjarasamningar séu við atvinnurekendur. Þeir fjalli ekki um örorkubætur.

„Kjarasamningar eru við atvinnurekendur. Þeir eru ekki um örorkubætur eða annað slíkt. Okkur rennur hins vegar blóðið til skyldunnar að standa við bakið á öryrkjum vegna þess að það er oft fín lína á milli þess að vera innan eða utan vinnumarkaðar. Þannig að þetta er að einhverju leyti líka okkar hópur. Við viljum berjast gegn því að fólk lendi á örorku,“ segir Drífa. Hún bendir á að það að festast í fátæktargildru, hvort sem fólk er á örorku eða lágum launum, verði til þess að fólk veikist. „Það er ekki sæmandi samfélagi að halda fólki undir fátæktarmörkum því það hefur skelfilegar afleiðingar fyrir einstaklinga og fyrir samfélagið.“

Öryrkjar hafa gleymst

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, sagði við undirritunina í dag að þetta væri söguleg stund. Hafa þá öryrkjar gleymst við gerð kjarasamninga?

„Algjörlega. Öryrkjar hafa gleymst þegar kemur að því að hækka örorkulífeyri eða halda uppi einhverju samfélagsviðmiði sem fólk getur lifað af frá árinu 2007,“ segir Þuríður. Þá hafi örorkubætur og lágmarkslaun verið á pari. Dregið hafi verulega í sundur. Munurinn nemi um 80 þúsund krónum núna. Hún vill tengja kjör öryrkja meira við kjarasamninga á almennum markaði. „Kannski er það fjarlægur draumur en það sem maður gælir við er að það verði þannig að þegar unnið er að gerð kjarasamninga séu þeir ekki kláraðir fyrr en búið er að skoða kjör öryrkja.“ 

Fólk býr við mikla fátækt

Ætla öryrkjar þá að bíða eftir næstu kjarasamningum? Nei, segir Þuríður. Við getum ekki beðið eftir því.

„Það verður að hækka örorkulífeyrinn. Hann er allt of lágur í dag. Fólk getur ekki dregið fram lífið á honum. Það opinberaðist núna í COVID-faraldrinum. Fólk býr við mikla fátækt,“ segir Þuríður

Þyrft að vera 400 þúsund

Hvað þurfa örorkubæturnar eða lífeyrir öryrkja að hækka mikið? Þuríður segir að í COVID-faraldrinum hafi menn verið sammála um að 400 þúsund væri það lægsta sem hægt væri að lifa af.

 „Auðvitað vildi ég sjá að færum upp í þá upphæð. Að minnsta kosti þyrftum við að sjá að við stæðum jafnfætis þeim sem eru með atvinnuleysisbætur og síðan að við yrðum jöfn þeim sem eru á lágmarksframfærslu.“
 

Nánar er fjallað um þetta mál í Speglinum.

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV