Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mestu fjármunir sem hafa verið greiddir í arf á Íslandi

19.05.2020 - 08:25
Mynd: Skjáskot / RÚV
Margt á eftir að koma í ljós um það hvers eðlis tilfærsla á stórum hlut í Samherja til barna stærstu eigenda fyrirtækisins er. Áætla má að framsal hlutabréfanna frá foreldrum til barna sé 60-70 milljarða virði, miðað við eiginfjárstöðu Samherja hf. segir Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans.

Aðaleigendur Samherja hf., þau Helga Steinunn Guðmundsdóttir, Þorsteinn Már Baldvinsson, Kristján Vilhelmsson og Kolbrún Ingólfsdóttir, tilkynntu á föstudag að þau hefðu framselt hlutabréfaeign sína í Samherja hf. til barna sinna. Þau áttu samtals 86,5% hlut í fyrirtækinu. Tilfærslan var blanda af fyrirframgreiddum arfi og sölu.

Sameiginlegt eigið fé Samherja Holding og Samherja hf. var í lok árs 2018 hundrað og ellefu milljarðar, miðað við gengi þess dags. 

„Þetta framsal sem á sér stað frá foreldrum til barna, þarna erum við að tala um 60-70 milljarða virði, fer eftir hvaða gengi maður reiknar evrurnar sem eru að færast á milli á,“ sagði Þórður Snær í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. 

Erfitt að áætla hverjar skattgreiðslurnar verða

„Við fengum ekki svör við því hvert virði hlutanna er í þessum viðskiptum og þar af leiðandi erfitt að reikna beint út hverjar væntar skattgreiðslur eru. En ég held það megi alveg slá því föstu að líkast til er þetta, allavega sem hefur verið gerð opinber, mestu fjármunir sem hafa verið greiddir í arf nokkru sinni á Íslandi,“ segir Þórður Snær.

„Þetta eru tugir milljarðar króna miðað við eiginfjárstöðuna. Og líkast til er virði Samherja meira en uppgefin eiginfjárstaða. Maður myndi ætla að það væri hægt að margfalda það eigið fé til að fá út einhvers konar markaðsvirði.“ 

Þórður segir að það eigi eftir að koma fram síðar meir hvaða verð var sett á eignarhlutina í viðskiptunum. Ljóst sé að af fyrirframgreiddum arfi er greiddur tíu prósenta erfðaskattur og af hagnaði við sölu hlutabréfa er greiddur venjulegur fjármagnstekjuskattur. Þetta skýrist þegar viðhlítandi gögnum verður skilað inn til fyrirtækjaskrár líkt og lög gera ráð fyrir. 

„Maður myndi ætla að þarna myndi skapast mjög hár skattstofn,“ segir Þórður Snær.