Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Leitin í dag bar ekki árangur

19.05.2020 - 20:24
Mynd: Rúnar Snær Reynisson / Rúnar Snær Reynisson
Umfangsmikil leit að skipverja sem talið er að hafi farið í sjóinn í Vopnafirði í gær hefur engan árangur borið. Hátt í 200 manns tóku þátt í aðgerðum í dag. Snemma í morgun streymdu björgunarsveitarmenn af Austur- og Norðausturlandi til Vopnafjarðar. Aðstæður til leitar voru góðar og bjart veður. Leitarmenn voru um 140 og þeim skipt í 45 leitarhópa sem dreifðu sér um strandlengjuna.

Óskar Þór Guðmundsson, aðgerðastjóri lögreglu, segir að leitarsvæðið hafi miðast við allan Vopnafjörð en gengið sé út frá ákveðnum punkti þar sem talið er að maðurinn hafi farið í sjóinn.

„Við göngum út frá ákveðnum punkti. Við auðvitað vonum að hann hafi bara alls ekkert farið í sjóinn en við miðum leitina við það að hann hafi lent í sjóinn og göngum út frá ákveðnum punkti sem við höfum já,“ segir Óskar Þór.

Maðurinn var á um 350 tonna netabáti sem kom inn til löndunar í gærmorgun.

„Það er í rauninni bara þegar skipið er komið að bryggju að menn fara á stjá þá í rauninni finna skipsfélagar hans hann ekki og þá er farið að óttast um hann,“ segir Óskar.

Kembdu alla ströndina

Björgunarskip og bátar gerðu breiðleit í firðinum. Þá kom ný tegund af sjóköttum, svokallaðir rescue runnerar, að góðum notum við að kemba ströndina. Þeim má sigla upp í kletta og nýtast þeir vel til að skoða sker og hólma. Björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði nýtti tvenns konar dróna til leitar; neðansjávardróna til að skoða fjarðarbotninn, en hann kemst niður á 150 metra dýpi og svo flugdróna en með honum má grandskoða strandlengjuna.

Þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðaði við leit í gær. „Og í dag er flugvél gæslunnar að leita úr lofti. Þannig að við erum búin að fá mjög góða aðstoð þar og þetta er leit á sjó þannig að hún stýrist í rauninni í samráði við gæsluna,“ segir Óskar.

Leit verður fram haldið á morgun. Björgunarsveitin Vopni annast hana næstu daga og fram að helgi en þá er stefnt að fjölgun í leitarliði að nýju. Ákvörðun um framhald leitar, hafi hún ekki borið árangur, verður þá tekin.