Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Lánar Isavia rúma sex milljarða

19.05.2020 - 12:53
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Evrópski fjárfestingabankinn hefur samþykkt að lána Isavia 40 milljónir evra sem eru um 6,3 milljarðar króna. Er þetta lokadráttur vegna láns upp á 100 milljónir evra sem bankinn veitti félaginu árið 2018 til framkvæmda á Keflavíkurflugvelli,

Fram kemur í tilkynningu frá Isavia að fjármögnunin komi til viðbótar við fjóra milljarða sem íslenska ríkið hefur þegar lagt félaginu til í aukið hlutafé. Þeir fjármunir eru eyrnamerktir ákveðnum fjárfestingaverkefnum á Keflavíkurflugvelli. Samtals hefur Isavia því tryggt sér yfir 10 milljarða króna í nýja fjármögnun frá því að flug til og frá Íslandi svo til lagðist af vegna kórónuveirufaraldursins.

Haft er eftir Sveinbirni Indriðasyni, forstjóra Isavia, í tilkynningunni að félagið hafi síðustu vikur og mánuði leitað allra leiða til að tryggja aðgang að fjármagni til þess að halda starfseminni gangandi. Óvissan verði áfram veruleg en ákvörðun bankans geri félaginu kleift að halda verkefnum áfram gangandi. 

„Þessi ákvörðun bankans sýnir vilja hans í verki til að koma með myndarlegum hætti að verkefnum sem styðja beint við endurreisn hagkerfisins,“ er haft eftir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra. 

Í lok mars sagði móðurfélag Isavia upp 100 manns, um 20 prósentum starfsmanna, vegna áhrifa COVID-19 á flugsamgöngur og þar með starfsemina.