Lækkun bygginga á Oddeyri breytir engu

default
 Mynd: G. Starri Gylfason - RÚV

Lækkun bygginga á Oddeyri breytir engu

19.05.2020 - 13:55

Höfundar

Hverfisráð Oddeyrar leggst gegn áformum um byggingar á Gránufélagsreit á Oddeyri á Akureyri, þrátt fyrir að hámarkshæð húsa hafi verið lækkuð úr ellefu hæðum í átta. Núgildandi skipulag, sem leyfir allt að fjögurra hæða hús, sé vænlegri kostur.

Skipulagsráð Akureyrarbæjar kynnti í byrjun maí breytingar á aðalskipulagi á Gránufélagsreit á Oddeyri. Áður höfðu verið kynnt áform um að heimila allt að ellefu hæða hús á reitnum en þau áform mættu mikilli andstöðu meðal íbúa og var til að mynda bent á neikvæð áhrif á aðflug á Akureyrarflugvelli og skuggaáhrif við nærliggjandi hús.

Þrjátíu og sex umsagnir bárust og þær voru teknar fyrir í skipulagsráði í vetur. Nýjar tillögur fela í sér að hámarkshæð húsa á reitnum verði sex til átta hæðir.  
Berglind Ósk Óðinsdóttir er formaður hverfisnefndar Oddeyrar, sem fundaði um málið í gærkvöld. Hún segir að lækkunin sem nú er boðuð breyti engu um afstöðu nefndarinnar og íbúa.

„Það er bara eins, hvort sem maður talar við fólk sem býr inni á Eyrinni eða bara annars staðar í bænum að fólki finnst þetta bara skrýtið. Þetta á ekki við. Það er gott skipulag í gildi sem bærinn ætti frekar að beita sér fyrir að sé unnið eftir. Þetta verður bara ekki smekkleg breyting ef þetta nær í gegn. Mér finnst viðhorf fólks ekki hafa breyst neitt við þessa breytingu á tillögunni,“ segir Berglind.

Í núgildandi skipulagi á reitnum er gert ráð fyrir að hús séu þrjár til fjórar hæðir. Hverfisnefndin ætlar að senda inn sína umsögn um breytinguna sem Berglind segir nánast óbreytta frá fyrri umsögn.

„Í grunnin er hún bara sú sama því að þetta er engin breyting að neinu viti, ekki sem að skiptir einhverju máli.“ segir Berglind.

Tengdar fréttir

Akureyri

Ný aðalskipulagsbreyting lækkar háhýsin á Oddeyrinni

Norðurland

Heitar umræður um skipulagsmál á Oddeyri

Tækni og vísindi

Nýta dróna til að finna leka í lögnum