Kostaði 22 þúsund að loka hálfri Lækjargötu í ár

19.05.2020 - 19:05
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Hálf Lækjargatan er enn lokuð vegna hótelframkvæmda, þótt þær séu stopp. Það kostaði verktakann ekki nema 22 þúsund krónur að fá götunni lokað í ár, en Reykjavíkurborg hefur til skoðunar að breyta gjaldtökunni.

Íslandshótel hófu framkvæmdir á Íslandsbankareitnum við Lækjargötu vorið 2018 en kórónuveirufaraldurinn hefur sett strik í þann reikning eins og svo marga aðra. Framkvæmdir við Hótel Reykjavík hafa verið á bið vegna efnahagsástandsins síðan um miðjan apríl.

Síðan hefur meira og minna allt verið stopp og alveg óvíst um framhaldið. Lækjargatan er hins vegar enn lokuð til hálfs eins og hún hefur verið í tvö ár. Fyrir það hefur verktakinn greitt borginni tvisvar sinnum 22 þúsund krónur.

„Ekkert voðalega mikill peningur“

Þetta leyfisgjald, 22 þúsund krónur, er föst tala, og óháð því hversu stórt verkefnið er, hversu mikið borgarland það leggur undir sig eða hvað er gert við það á meðan – eina krafan er að landinu sé skilað í nákvæmlega sama horfi.

„Það er ekkert voðalega mikill peningur en þetta er bara það sem gjaldskráin gerir ráð fyrir,“ segir Hjalti J. Guðmundsson, skrifstofustjóri rekstrar og umhirðu hjá Reykjavíkurborg. „Við erum að skoða það núna að hefja undirbúning að nýrri gjaldskrá sem gerir ráð fyrir því að við ætluðum að leigja landið undir þessar framkvæmdir eða viðburði.“

Í flestum tilvikum mundi gjaldið þá hækka, að sögn Hjalta.

Endurskoða leyfið í júlí

Við Hótel Reykjavík voru í dag nokkrir menn að vinna við ýmislegt smálegt sem ekki þolir bið, að sögn framkvæmdastjóra Íslandshótela. En hvað verður um þessi leyfi borgarinnar þegar nánast engar framkvæmdir eru í gangi?

„Þessi tiltekna framkvæmd er með leyfi sem gildir til 21. júlí og við erum núna að undirbúa að endurskoða þessa tilteknu framkvæmd og leyfið bak við hana. Það verður að hafa það í huga að þegar við gefum út leyfi þá gildir það leyfi burtséð frá aðstæðum í samfélaginu, svo tökum við bara upp leyfisveitinguna þegar að endilokum hennar er komið,“ segir Hjalti J. Guðmundsson.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi