Kortavelta erlendra ferðamanna ekki lægri frá upphafi

19.05.2020 - 10:38
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jónsson - RÚV
Greiðslukortavelta Íslendinga í verslunum innanlands var 11% meiri í apríl 2020 en á sama tíma fyrir ári. Þó var samdráttur í heildarkortaveltu landsmanna um 13,6% að nafnvirði. Heimavinnandi Íslendingar í samkomubanni nýttu sér vefverslun sem aldrei fyrr enda jókst hún um 260% milli ára.

Þetta kemur fram á vef Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Viðbúið er að margir hafi nýtt inniveruna til að dytta að ýmsu heima fyrir, eða jafnvel farið í stærri framkvæmdir því talsverð aukning var í kortaveltu byggingavöruverslana á sama tíma. Sömuleiðis keyptu Íslendingar áberandi meira af raftækjum nú í apríl en fyrir ári.  

Íslendingar gerðu sér fáar ferðir í fataverslanir og keyptu þar lítið en nýttu sér frekar  netið til fatakaupa. Minni þörf á ferðum milli staða endurspeglast í samdrætti í eldsneytissölu og hið sama á við um veitingasölu enda greiðahús ýmist alveg lokuð eða gátu aðeins tekið á móti fáum gestum í einu.  

Samkomubannið hafði veruleg áhrif á lækna, tannlækna, snyrtifræðinga og aðra heilsustarfsemi enda var samdrátturinn á því svið að jafnaði um 80% í apríl.  

Mælingar hófust á kortaveltu erlendra ferðamanna árið 2002 og hefur ekki verið lægri að raungildi í einum mánuði síðan þá. Samdrátturinn var mestur í menningartengdri þjónustu en milli ára var 93,3% en veltan var hæst á bandarískum kortum. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi