Húsfélag fær deilu tónlistarkonu og leigusala í fangið

19.05.2020 - 23:02
Drónamyndir.
 Mynd: RÚV
Kærunefnd húsamála telur að húsfélag í fjöleignarhúsi þurfi að höggva á hnútinn í deilu tónlistarkonu og leigusala og setja reglur um hvenær má og hvenær má ekki syngja og spila. Leigusalinn kvartaði til nefndarinnar og sagði tónlistarkonuna ekki sýna leigjanda hans næga tillitsemi. Hún notaðist við „hljóðmagnara, karókí og æfi nokkrum sinnum yfir daginn með miklum látum.“ Tónlistarkonan sagði leigusalann hafa ítrekað og í lengri tíma lagt hana í einelti.

Í áliti kærunefndarinnar kemur fram að tónlistarkonan búi á fyrstu hæð í fjölbýlishúsi en leigusalinn eigi íbúð í kjallara og leigi hana út.  Leigusalinn vildi að kærunefndin setti tónlistarkonunni þau skilyrði að æfingar yrðu aðeins leyfðar milli 14 og 20 og mættu ekki vara lengur en í klukkustund. 

Viðstöðulaus söngur og píanóspil

Í beiðni sinni til nefndarinnar sagði leigusalinn að tónlistarkonan æfði „viðstöðulaust söng og spili á píanó í íbúð sinni.“ Þetta hefði hún gert með miklum og auknum látum. Sá sem leigði íbúðina í kjallaranum væri í þannig vinnu að hann þyrfti að hvílast til 13 eða 14 á daginn til að fá nægan svefn. Tónlistarkonan hefði brugðist illa við tilmælum um að byrja seinna á daginn og sagt að hún mætti spila tónlist allan daginn.

Þá sagði leigusalinn að tónlistarkonan væri með hljóðmagnara og karókí og æfði nokkrum sinnum yfir daginn. Þetta væri ekki áhugamál eins og ef barn væri að æfa píanó heldur væri hún að undirbúa tónleika sem hún fengi greitt fyrir. Hún væri með hljóðfæraleik sem ætti ekki heima í fjölbýli. 

Gagnkvæmur kærleikur milli annarra íbúa

Tónlistarkonan sagði í greinargerð sinni til nefndarinnar að leigusalinn hefði ítrekað og í lengri tíma lagt hana í einelti. Rangur tími hefði verið gefinn upp á söng hennar og hljóðfæraslætti. Milli hennar og eiganda í risi væru engin leiðindi „heldur gagnkvæmur kærleikur og virðing.“ Þá væru þrír aðrir leigjendur í kjallaraíbúðinni og þau væru henni öll undurgóð. 

Leigusalinn vísaði því á bug að hann leggði tónlistarkonuna í einelti. Hann hefði heyrt fyrri eigendur kvarta undan hávaða og lagði fram hljóðupptöku sem hann sagði sanna við hvað væri að etja.

Sagði leigusalann notast við tónlist af Spotify

Tónlistarkonan hafnaði þessu og sagði upptökuna ótrúverðuga. Trúlega hefði leigusalinn sjálfur verið með hávaða í herberginu eða spilað lög hennar af Spotify til að magna upp tónlistina eða einhvern hávaða á miðjum degi.

Kærunefndin tók undir það með leigusalanum að rétt væri að takmarka söng-og hljóðfæraiðkun tónlistarkonunnar þannig að hagsmunir allra í húsinu væru tryggðir. Það væri hins vegar húsfélagsins að setja slíkar reglur og það væri eingöngu gert á húsfundi.  Tækist ekki að leysa málið á slíkum fundi væri hægt að bera málið undir nefndina að nýju.

  

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi