Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hrísgrjónaréttur gegn Covid-19

Mynd: EPA-EFE / EPA

Hrísgrjónaréttur gegn Covid-19

19.05.2020 - 14:08

Höfundar

Þegar plágan herjaði á Yogyakarta á Jövu í Indónesíu segir þjóðsagan að soldáninn hafi fyrirskipað þegnum sínum að elda sayur lodeh og halda sig heima í 49 daga. Það virkaði þá og hefur oft virkað síðan. Enn á ný hefur verið gripið til þessa ráðs í COVID-faraldrinum, að fyrirskipan sóldánsins sem enn ræður ríkjum í Yogyakarta.

Sayur lodeh er einfaldur grænmetiskarríréttur með sjö lykilhráefnum í sterkkrydduðum kókosmjólkurgrunni. Næringarfræðingar segja þetta kjörinn rétt fyrir sóttkví, hann er næringarríkur og úr heimaræktuðu hráefni sem allir ættu að hafa við höndina. Sumir vilja reyndar bæta í uppskriftina galangal sem hefur bólgueyðandi eiginleika.

Við erum öll almannavarnir

Mikilvægi tilskipunar soldánsins felst ekki síst í samstöðunni sem myndast, þegar allir þegnar sitja við sama borð, í þeim skilningi að háir sem lágir borða sama matinn. Við erum öll almannavarnir og saman sigrum við pláguna ef við hlýðum Víði eða öllu heldur soldáninum. Sérfræðingur í menningu Jövu segir við BBC að tilgangurinn sé að koma í veg fyrir ógæfu. Án hindrana geti náttúran eða lífið séð um sig sjálft. Matargerðarlistin er þannig hlaðin táknmyndum af ýmsum toga. Rétturinn nasi tumpeng er blanda grænmetis og kjöts undir kórónuturni túrmerikgulra hrísgrjóna sem á að endurspegla heimsmyndina undir guði. Nasi kuning er ilmríkur og gulur hrísgrjónaréttur til að blessa ný heimili og fyrirtæki. Túrmerikdrykkurinn jamu merkir heilsubæn og á að stuðla að innri friði.
 

epa08325731 A handout photo made available by Indonesia's National Agency for Disaster Countermeasure (BNPB) shows Mount Merapi volcano spewing volcanic ash as seen from Yogyakarta, Indonesia, 27 March 2020. The volcano erupted on 27 March sâ??pewing a 5000-meter column of smoke and ash into the sky.  EPA-EFE/BNPB/HANDOUT HANDOUT, EDITORIAL USE ONLY, NO SALES, BEST QUALITY AVAILABLE HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - BNPB

Plágurétturinn góði sayur lodeh er ekki síður táknum hlaðinn og lykilhráefnin gegna þar ríkulegu hlutverki. Þau eru melinjo sem er ólívulíkur ávöxtur, melinjo-lauf, chayote sem minnir á grasker, grænar baunir í belgnum, eggaldin, saðningaraldin og tempeh. Eggaldin merkir að vekja til meðvitundar, nafn grænu baunanna táknar blessun og saman mynda hráefnin í sayur lodeh eins konar töfraþulu. Matreiðslan er nokkurs konar helgisiður og markmiðið er að verjast hinu illa. Að sama skapi er þetta einstaklega einfaldur og fljótlegur réttur þar sem ósköp venjuleg hráefni eru soðin saman yfir opnum eldi.

Þjóðsagnakenndur uppruni

Uppruni þessa réttar er þjóðsagnakenndur og margir rekja hann til blómaskeiðs Javamenningarinnar í byrjun elleftu aldar eða þegar rétturinn átti sinn þátt í að bjarga íbúum í miklu eldgosi í fjallinu Merapi árið 1006. Matarsagnfræðingar vilja margir rekja hann til sautjándu aldar eða eftir að baunirnar bárust með Spánverjum og Portúgölum. Enn aðrir halda því fram að rétturinn sé forn hefð sem í raun hafi verið tilbúin eða sköpuð af þjóðernissinnum í kringum aldamótin 1900 en frá þeim tíma má rekja ýmsar goðsagnir sem ýmist voru endurvaktar eða einfaldlega búnar til. Hvað sem upprunanum líður er frægasta dæmið frá 1931 en gögn sýna einnig að rétturinn var eldaður til að bregðast við ýmsum hörmungum 1876, 1892, 1946, 1948 og 1951. Rétturinn og þjóðsagan hefur svo borist með sæförum til nágrannalanda en þetta er tilvalið skipsfæði og hefur öðlast virðingu sem heilsufæði víða um lönd. Þjóðsagnakenndur uppruni hans á líka stóran þátt í vinsældunum.

epa06357074 Indonesian police and rescue officers evacuate residents from a flooded village in Gunung Kidul, Yogyakarta, Indonesia, 29 November 2017. According to media reports, at least 19 people were killed following landslides and floods triggered by a
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Eftir að kórónuveirufaraldurinn fór að berast um heimsbyggðina barst tilskipun á samfélagsmiðlum í Yogyakarta um að nú ættu þegnar soldánsins að elda sayur lodeh. Boðin virðast koma frá soldáninum sjálfum og þegnar gerðu hefðinni samkvæmt eins og fyrir þá var lagt á erfiðleikatímum. Enginn veit þó með vissu hvort skilaboðin koma frá soldáninum sjálfum eða ekki en allir virðast vilja trúa og hlýða. Þessi óvissa hentar soldáninum reyndar ágætlega. Ef allt fer að óskum verður honum þakkað en ef veiran fer að herja í Yogyakarta í lok ramadan í maí er kannski ekki gott að tengjast um of fornum hindurvitnum. 

Elda sayur lodeh og bíða í 49 daga

Fyrir þegnana skiptir þetta ekki öllu máli. Fólkið brást við hættuástandi eins og það hefur alltaf gert. Með því að elda sayur lodeh. Hvort sem tilskipunin er frá sóldáninum eða ekki, þá bíður það nú í tilskilda 49 daga.