Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hafa náð tökum á gróðureldunum - vakta svæðið

19.05.2020 - 02:33
Mynd: Gísli Einarsson / RÚV
Búið er að ná tökum á gróðureldum í Norðurárdal í Borgarfirði. Hátt í hundrað manns hafa kljáðst við eldinn síðan um sex í kvöld. Slökkviliði Borgarbyggðar barst liðsauki frá Slökkviliðinu á Akranesi og Brunavörnum Suðurnesja í baráttunni við eldinn.

Uppfært 04:25 - Bjarni Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Borgarbyggðar segir í samtali við fréttastofu að búið sé að vinna á eldinum. Enn logi þó hér og þar. Mannskapur verður í Norðurárdal til átta í fyrramálið. Þá verða aðstæður endurmetnar.

Heiðar Örn Jónsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri Slökkviliðs Borgarbyggðar segir í samtali við fréttastofu að slökkvistarf gangi mjög vel. Töluvert svæði hefur orðið eldinum að bráð í kvöld og er mikið svæði sem enn brennur. 

Mynd: Gísli Einarsson / RÚV

„Ég geri ráð fyrir því að við verðum að eitthvað fram undir morgun," segir hann

Aðstæður eru mjög erfiðar og hefðbundinn slökkvibúnaður dugir skammt í hrauninu og mosanum í Norðurárdal. Heiðar segir mosann brenna öðru vísi en sina gerir. Froðubúnaður frá Slökkviliðinu á Akranesi hefur hins vegar nýst vel og vinnur betur á eldinum. 

Heiðar segir mannskapinn búinn að vera öflugur við þessar aðstæður. Engu að síður sé þreyta í fólki, þegar svo langt er liðið á kvöldið. Þakka megi fólki sem býr í nágrenninu fyrir að veita slökkviliði mat og drykk.

Frétt og fyrirsögn hafa verið uppfærðar.

Mynd: Gísli Einarsson / RÚV