Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Foreldrar vilja meiri upplýsingar um mygluviðgerðir

19.05.2020 - 09:59
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Foreldrafélagið í Lundarskóla á Akureyri vill fá meiri upplýsingar frá skólayfirvöldum vegna myglu sem fannst í skólanum í vor. Foreldrar óttast að málið verði þaggað niður og ekki verið brugðist við á fullnægjandi hátt.

Í bréfi sem foreldrafélagið sendi fræðslustjóra, formanni fræðsluráðs, Fasteignum Akureyrar og skólastjóra Lundarskóla kemur fram að foreldrum hafi verið tilkynnt að raki hafi fundist í Lundarskóla og að viðgerðir séu hafnar. Foreldrum hafi hins vegar ekki verið gerð grein fyrir hversu mikil eða dreifð myglan er. Þeir hafi ekki heldur fengið að vita hversu mikillar viðgerðar er þörf né hve langan tíma þær eigi að taka. 

Myglan þögguð niður

Foreldrafélagið óttast að skólinn sé heilsuspillandi bæði fyrir nemendur og starfsfólk og að viðgerðir verði ekki fullnægjandi. Foreldrum finnist að reynt hafi verið að þagga umræðuna niður og ekki hafi verið tekið mark á ábendingum um myglu. Það hafi tekið mörg ár að fá rannsókn á húsinu og nú óttist fólk að málið verði þaggað niður. Í stað fullnægjandi aðgerða verði settir plástrar á verstu staðina en annað látið liggja milli hluta. 

„Nú þegar eru veikindi meðal nemenda og starfsfólks sem óttast er að rekja megi til myglunnar“ segir ennfremur í bréfinu. Það sé ólíðandi og fari ekki saman við stefnu skólans um að vera heilsueflandi skóli. 

Vilja betra upplýsingaflæði

Óskað er eftir svörum við því í hvaða framkvæmdir verði farið, hversu langan tíma þær taki, hver áætlaður kostnaður sé og hvar nemendur eigi að vera meðan á framkvæmdum stendur. Jafnframt vill félagið vita hvernig á að upplýsa foreldra og starfsfólk betur til að koma í veg fyrir sögusagnir sem valda reiði eins og gerst hafi í skólum fyrir sunnan.