Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Ég vissi strax að þetta væri minn maður“

Mynd: skjáskot / Leikfélag Akureyrar í 100 ár

„Ég vissi strax að þetta væri minn maður“

19.05.2020 - 09:16

Höfundar

Leikhúshjónin Þórhildur og Arnar misstu Guðrúnu Helgu dóttur sína úr krabbameini árið 2003. Fjölskyldan hefur í sameiningu tekist á við sorgina sem á þó alltaf eftir að fylgja þeim. Þau rífast oft en sættast jafnóðum og leysa úr erfiðleikunum, enda gjörólík.

Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri og Arnar Jónsson leikari sáust fyrst í Þjóðleikhúsinu, sem átti eftir að vera tíður samkomustaður þeirra hjóna í áratugi. Arnar segist hafa rekið augun í Þórhildi að skottast um gangana með hinum ballettstelpunum og hún fangaði strax athygli hans. Þórhildur man alltaf eftir því þegar hún tók loks eftir Arnari. Þá varð ekki aftur snúið. „Ég var stödd uppi á æfingasal í Þjóðleikhúsinu. Það var æfing á Pétri Gaut, sem var jólasýningin 1962, og við vorum bæði í henni. Ég bara sá þennan unga mann labba inn í æfingasalinn og vissi strax að þetta væri minn maður,“ rifjar hún upp. „Hún segir allt annað hafa horfið,“ skýtur eiginmaður hennar glettinn inn í. „Já. Það er eins og þegar öll ljós eru slökkt, en skilið eftir eitt spotlight. Ég hef enga skýringu á þessu en það var eitthvað sem gerði að verkum að ég vissi hvað væri að gerast.“ 

Þórhildur og Arnar voru gestir Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í Gestaboði. Þau ræddu um ástina, sem þau höfðu alls ekki ætlað sér að tala um, ferilinn, barnalánið og fráfall elstu dóttur þeirra, Guðrúnar Helgu, árið 2003. 

„Þetta hefur verið stormasamt“

Þórhildur hafði frétt af Arnari fyrir þeirra fyrsta fund, að það væri kominn strákur í skólann sem væri einstaklega fallegur. Félagi hennar gaukaði því að henni að þarna væri líklega kominn strákur fyrir hana og hann reyndist ótrúlega sannspár. Þótt það væri eins og örlögin hefðu leitt þau saman þá hefur hjónabandið, sem staðið hefur í hálfa öld, ekki alltaf verið auðvelt enda segjast þau vera afar ólík. „Okkur hefur gengið mjög vel að rífast í gegnum ævina og finnum næg tilefni. Oftast um einhver smáatriði, einhverjir neistar sem setja allt í gang. Við höfum verið gift í hálfa öld en höfum rifist frá fyrsta degi. Þetta hefur verið stormasamt,“ segir Þórhildur og Arnar tekur undir. „Við erum gífurlega ólík svo það hafa verið næg tilefni,“ segir hann en hjónin hafa sæst jafnoft og þau hafa byrjað að deila.

„Enn að ákveða hvort við viljum vera saman“

Það hefur hvarflað að þeim að hætta saman en Þórhildur segir það þó aldrei hafa verið í mikilli alvöru. Þau útiloki þó möguleikann aldrei beint. Hún minnist þess þegar þau fögnuðu 25 ára brúðkaupsafmælinu eftir æfingu á Pétri Gaut sem þau voru að setja upp aftur aldarfjórðungi eftir að þau kynntust í sömu sýningu. Þórhildur leikstýrði og ýmsir stórleikarar stigu þar sín fyrstu skref, kornungir leikarar. „Þetta var fyrsta sýningin sem Ingvar E. og Baltasar Kormákur voru í. Þetta var stór árgangur og þau voru eiginlega öll í sýningunni,“ rifjar Þórhildur upp. Og hópurinn var gáttaður á því að hjónin hefðu verið saman svona lengi. „Leikararnir voru eðlilega öll að byrja ferilinn og ævina og þau spyrja: 25 ár? Eins og það væri hreinlega kraftaverk að við værum á lífi. Ég sagði: Við erum ekki komin lengra en það að við höfum verið gift í 25 ár en enn að reyna að ákveða hvort við ætlum að vera saman. Þannig hefur þetta verið dálítið.“ En alltaf hafa þau komist að samkomulagi um að halda áfram að vera saman, „og yfirstigið þessa erfiðleika,“ segir Arnar.

Sögð grimmari við Arnar en aðra leikara

Þau hafa unnið að ýmsum sýningum saman þó þau hafi oftar unnið hvort í sínu lagi. Samstarfið segja þau þó alltaf hafa verið gjöfult á báða bóga. „Ég held það hafi ekki sett neitt strik í reikninginn, nema til að dýpka samstarfið, að við værum hjón. En það var ekkert gagnkvæm aðdáun alltaf, við veittum hvort öðru aðhald. Stundum sögðu leikararnir að ég væri grimmari við hann en aðra. Þetta hefur verið stór hluti af okkar lífi,“ segir Þórhildur.

Ekki ónýtt að hafa slíkan leikstjóra

Arnar segir konuna sína vera magnaðan leikstjóra sem hafi knúið hann til að fara alla leið í túlkun sinni, „lengra en maður vill fara sjálfur. Maður vill ekki fara yfir sársaukamörkin og oft og tíðum þarftu að bera þig þannig að ef þetta á að nást og þú ætlar að hafa áhrif á þá sem horfa verður þú að fara lengra. Til að ná þeirri dýpt í verkinu sem það býður upp á,“ segir hann. „Þá er ekki ónýtt að hafa slíkan leikstjóra.“

Leikstýrði eiginmanninum í kveðjusýningunni

Síðasta sýningin sem hjónin unnu að saman var Sveinsstykki þegar Þórhildur leikstýrði Arnari í kveðjusýningu hans í Þjóðleikhúsinu. Sýningin var sýnd á RÚV um páskana og er aðgengileg í spilara. Verkið er einleikur eftir Þorvald Þorsteinsson sem er sérstaklega skrifaður fyrir Arnar Jónsson og var fyrst sett upp árið 2003, þá í leikstjórn Þorleifa Arnar, sonar hjónanna. Þegar það var sett upp aftur tíu árum síðar í leikstjórn Þórhildar varð sýningin frábrugðin fyrstu uppsetningunni enda mæðginin ólíkir leikstjórar. „Þetta var kveðjusýning. Ég var að kveðja áhorfendur mína. Ég mátt ekki vera lengur á samningi sjötugur,“ segir Arnar. Sýningin átti upprunalega bara að vera stök en hún var svo vinsæl að þau fylltu stóra salinn í Þjóðleikhúsinu fimm sinnum og fóru svo með hana um landið. 

„Þurfti stundum að taka grýluhlutverkið að mér“

Hjónin eignuðust fimm börn og voru alls ekki alltaf sammála um uppeldið. Það varð fljótlega ljóst hver gegndi hvaða hlutverki gagnvart börnunum. „Ég var strangi aðilinn og Arnar var sá eftirgefanlegi og blíði,“ segir Þórhildur. „Ég þurfti stundum að taka grýluhlutverkið að mér. Þetta var stundum deiluefni og þau vissu vel hvert þau áttu að snúa sér til að fá vilja sínum framgengt.“

Þrjú af fimm börnum í leikhúsinu

Og þrjú börn af fimm hafa verið virk í leikhúsinu. Sólveig er leikkona, Þorleifur leikstjóri og Jón Magnús leikskáld og rithöfundur. „Auðvitað komu krakkarnir mikið í leikhúsið, voru með og léku. Sólveig fór að leika fljótt sem barn í Þjóðleikhúsinu og eftir á að hyggja held ég að þetta hafi komið fljótt í ljós að það voru Sólveig og Þorleifur sem höfðu strax áhuga á leikhúsi. Jón hefur verið að skrifa og mikill textamaður, Oddný og Guðrún Helga, sem er því miður dáin, eru afskaplega líkar. Með líkt geðslag og hæfileika,“ segir Þórhildur stolt. „Þær eru skipulagðar og það lætur þeim mjög vel að leysa verkefni. Oddný er gríðarleg málamanneskja sem ryður út úr sér tungumálum. Hún vinnur hjá Íslandsstofu og þar er unnið hörðum höndum að því að koma Íslandi aftur á kortið og þar nýtir hún málakunnáttu sína og skipulagsfærni. Ég held hún sé góð í að kalla aðra til verka og þannig var Guðrún líka.“

Guðrún Helga er alltaf nálæg

Guðrún Helga lést 2003 úr krabbameini. „Þetta fer aldrei frá manni,“ segir Arnar um sorgina. „Mér reyndist best að normalísera lífið strax. Það vildi þannig til að við vorum bæði í mikilli vinnu. Ég hafði sett upp Söngvaseið á Ísafirði með Litla leikklúbbnum úr tónlistarskólanum. Þeirri sýningu var boðið suður og hún var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu frá láti Guðrúnar til jarðarfarar,“ segir Þórhildur. Arnar bætir því við að fjölskyldan haldi minningu Guðrúnar Helgu lifandi með því að tala um hana „svo hún hefur alltaf verið nálæg.“

Veist aldrei hvenær sorgin hellist aftur yfir þig

Þórhildur segir að dótturmissirinn sé ferli sem eigi eftir að standa út lífið. „Þetta er sársauki sem maður losnar ekki við og kærir sig ekki endilega um að losna við,“ segir Þórhildur. Maður lifir með honum en auðvitað minnkar verkurinn í brjóstinu og maður fer að ylja sér við góðar minningar og getur hlegið.“

Í hverri manneskju eru mörg leynihólf, sað sögn Arnars, og sem leikari þarf maður að gægjast í hólfin og horfast í augu við það sem þar leynist. „Sorgin er eitt af þeim hólfum sem alltaf er þarna og þú veist af,“ segir hann. „Svo gerist eitthvað og allt í einu ertu á gangi og sérð eða skynjar eitthvað og þá opnast allt. Þú veist ekki hvenær það gerist.“

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Þórhildi Þorleifsdóttur og Arnar Jónsson í Gestaboði á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Sorgin er eins og svartur steinn í hjartanu“

Menningarefni

„Ég stend mig enn að því að tala við pabba“

Menningarefni

„Svona sársauki getur tætt mann í sundur og eyðilagt“