Bruninn á Akureyri: „Þetta leit strax illa út“

19.05.2020 - 21:34
Mynd: Ágúst Ólafsson / RÚV
Eitt elsta íbúðarhús Akureyrar er sennilega ónýtt eftir mikinn eldsvoða í kvöld og verður líklega rifið. Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri, segir að þetta hafi litið strax illa út. Reykkafarar fundu rænulausan mann á miðhæð hússins og var hann fluttur alvarlega slasaður á bráðadeild Sjúkrahússins á Akureyri.

Allt tiltækt lið slökkviliðsins var kallað út á áttunda tímanum í kvöld vegna elds í gömlu bárujárnshúsi við Hafnarstræti.

Ólafur segir í samtali við Ágúst Ólafsson, fréttamann RÚV á Akureyri,  að þeir hafi freistað þess að slökkva eldinn án þess að rífa þakið en snemma hafi  orðið ljóst að það gengi ekki eftir. 

Reykkafarar voru sendir inn á meðan það var talið öruggt en fljótlega varð að kalla þá út. „Þeir fóru inn til að leita að fólki en gátu ekki farið um allt þar sem húsið var orðið alelda.“

Ólafur segir þetta hús sem logi vel í og því verði erfitt að slökkva eldinn. „Bárujárnið heldur hitanum og reyknum inni.“ Hann telur það blasa við að húsið sé ónýtt og þess bíði ekkert annað en að verða rifið.

Húsið stendur við Hafnarstræti og var byggt snemma á síðustu öld. Það er því eitt elsta íbúðarhús Akureyrar. Mikinn reyk lagði yfir innbæinn á Akureyri og sögðust íbúar finna mikla reykjarlykt. Rýma þurfti tvö hús vegna hættu á að eldurinn næði til þeirra og aðrir í nágrenninu voru beðnir um að loka gluggum.

Ekkert liggur fyrir um eldsupptök. Fram kom á Facebook-síðu lögreglunnar á Akureyri í kvöld að rannsókn á vettvangi hæfist sennilega ekki fyrr en á morgun.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV