Brexit með COVID-19 smit

19.05.2020 - 17:00
Brexit · Erlent · ESB
Mynd: EPA / EPA
Þriðju lotu samningaviðræðna Breta og Evrópusambandsins um framtíðarviðskipti samningsaðila lauk fyrir helgi með litlum árangri og hvassyrðum á báða bóga. COVID-19 veiran hindrar að samningamenn hittist en veiran smitar líka Brexit með ýmsum hætti.

COVID-19: nýi óvinurinn, nýir siður

En heimurinn var að breytast; nýi óvinurinn, kórónuveiran, innleiddi nýja siði. Þegar Angela Merkel Þýskalandskanslari mætti á fund 2. mars og ætlaði að vanda að heilsa með handabandi minnti Horst Seehofer innanríkisráðherra hana á að nú væri handaband óviturlegt. Hláturinn glumdi, Merkel fórnaði höndum, auðvitað ætti handaband ekki lengur við, sagði kanslarinn.

Glaðbeitt handabönd á veirutímum

Á blaðamannafundi tveimur dögum síðar sagði Boris Johnson glaðbeittur frá því að hann héldi nú alveg áfram að heilsa með handabandi; í spítalaheimsókn hefði hann heilsað COVID-sjúklingum með handabandi, það væri mikilvægt að halda því áfram, en fyrir hvern og einn að gera þetta upp við sig.

Brexit seinkaði mögulega samkomubanni

Fram að þessu hafði Brexit verið helsta hugðarefni Johnsons. Kannski ein ástæðan fyrir að Bretar voru einna síðastir Evrópuþjóða að setja á samkomubann, ekki fyrr en 23. mars. Brexit drukknaði í veirufréttaflóðinu sem skolaði burtu þessum fyrrum óyfirstíganlega pólitíska þröskuldi: að sameina þjóðina. Brexit varð eins og gömul saga sem allir höfðu misst áhugann á.

COVID og Brexit óhjákvæmilega samtvinnað

Nú er löngu ljóst að framvinda COVID og Brexit er með ýmsum hætti samtvinnuð, hvort sem er veiruhamur þingsins eða samningaviðræðurnar og útkoman þar. – Í síðustu viku sagði íhaldsþingmaðurinn Jacob Rees-Mogg, sem leiðir þingstörfin fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, að þingið gæti ekki hvatt fólk til að mæta í vinnuna og setið svo sjálft heima.

,,Við ættum að sýna fordæmi,“ sagði þingmaðurinn. Þingið ætti helst að koma saman í júníbyrjun, eftir væntanlegt þinghlé, halda þá hæfilegri fjarlægð innanhúss.

Veiran hægir á þinginu – og hugsanlega Brexit

Ekki einfalt þetta með tvo metra milli manna í þingsal, sem rúmar ekki alla 650 þingmennina og bekkirnir oft troðnir. Einnig í þessu máli er Brexit-vídd. Brexit klárast ekki nema þingið afgreiði töluvert mörg Brexit-mál en veiran hægir á þingstörfum.

Rees-Mogg nefndi ekki Brexit en hægagangur þingsins er sérstakt áhyggjuefni Rees-Mogg og annarra Brexit-sinna þingmanna sem nú mynda nýtt lið í þingflokki stjórnarinnar: Brexit-sinna þingmenn sem telja að stjórnin eigi að haska sér að galopna aftur þingsalinn og landið. Hópurinn mun án efa beita kröftum sínum í báðum þessum málum, rétt eins og hann gerði í Brexit á stjórnartímum May.

Gamall Brexit-draugur aftur á ferðinni: útganga án samnings

Nú er líka annað áhugamál Brexit-sinna stjórnarþingmanna aftur í augsýn, það er útganga án samnings, þegar ESB-aðild Breta lýkur með öllu í árslok. Ein Brexit-hindrun May var að bæði hún og meirihluti þingmanna voru á móti samningslausri útgöngu. Tryggur þingmeirihluti ríkisstjórnarinnar auðveldar slíka útgöngu, sem Johnson telur vel mögulega.

Hótun eða alvara?

Vissulega ýmsir sem telja þetta aðeins samningsbragð: forsætisráðherra kjósi samninga um framtíðarsamskipti Breta og ESB en vilji nota möguleikann um samningslausa útgöngu til að skelfa ESB og þrýsta á samninga sem Bretum hugnist. En, hugsanlega hefur tíminn unnið gegn Bretum: ESB sætt sig við samningslausa útkomu og veiruváin minnki hlutfallslega vandann sem hún myndi valda ESB.

Stjórnarliðar hafna eindregið að fresta Brexitfullnustunni í árslok, samningar eða engir samningar.

Veirukostnaðurinn, Brexit-kostnaðurinn

Í huga hörðustu Brexit-sinna gæti veirukostnaðurinn drekkt kostnaði vegna Brexit og algjört rof og engir samningar auðveldað bresku stjórninni að fara sínu fram í viðreisn efnahagslífsins eftir veiruvána. – Aðrir líta svo á að Brexit og þá einkum samningslaust Brexit væri háskaleg og óábyrg niðurstaða, sem auki bæði veiruvandann og kostnað þjóðarbúsins illilega.

Samningsleiðtogar brýna sig

Michel Barnier aðalsamningamaður ESB var ómyrkur í máli eftir samningslotuna í síðustu viku, afar vonsvikinn yfir afstöðu Breta, líka í atriðum sem hefðu ekkert með aðild að gera eins og reglum um peningaþvætti.

Það heyrist að David Frost samningamaður Breta vilji nú gefa ESB fimmtán daga til að sýna meiri sveigjanleika, ella slíta viðræðunum.

Veiran hefur aukið samhug en grafið undan samstöðu landshlutanna

Veiran eflir ljóslega samhug í Bretlandi, líkt og víðar. En hún hefur líka grafið undan samstöðu landshlutanna fjögurra, sem fara hver sínu fram í veiru-viðureigninni. Skotland og Norður-Írland, tveir landshlutar sem eru andvígir Brexit, fara sér hægar í afnámi veiruaðgerða en ríkisstjórnin. Hvort það á eftir að hafa Brexit-áhrif kemur í ljós. Alla vega óhætt að segja að Brexit er smitað af COVID.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi