Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Aukin gróðursæld eykur hættu á gróðureldum

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Einarsson - RÚV
Eftir því sem gróðursæld vex á Íslandi eykst hætta á gróðureldum. Plöntuvistfræðingur segir að það eigi eftir að taka landið sem brann í nótt langan tíma að jafna sig. Veðurstofan hefur lengi viljað auka vöktun á gróðureldum en það hefur strandað á fjármagni. 

Gróðureldatíð

Talið er að um 15 hektarar hafi brunnið í gróðureldum í Norðurárdal í Borgarfirði í nótt. Slökkviliðsmenn notuðu sinuklöppur og froðu til að kæfa eldinn sem hafði læst sig í mosaþembur og kjarrgróður. Klukkan sex í morgun var slökkt í síðustu glæðunum, baráttan stóð í hálfan sólarhring og yfir hundrað komu að slökkvistarfinu. Í gær var Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu í þrígang kallað út vegna gróðurelda, í Grafarholti, Mosfellsbæ og Stekkjarbakka við Elliðaárdal. Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins segir í samtali við fréttastofu að erfitt gæti reynst að ráða við gróðurelda á höfuðborgarsvæðinu. Aðkoma slökkviliðs geti verið erfið, einkum á útivistarsvæðum þar sem er mikill trjágróður. 

Gróðureldir eru algengastir á vorin, þá er oft þurrt í veðri og gróðurinn ekki farinn að ná sér á strik. Eldur getur breiðst hratt út í sinu eða öðrum þurrum gróðri.  Þurrkar að sumri geta líka skapað hættu á gróðureldum. 

Ekkert kemst í hálfkvisti við Mýrarelda

Mestu gróðureldar sem orðið hafa á Íslandi, svo vitað sé, geisuðu á Mýrum á Vesturlandi, vorið 2006. 100 ferkílómetrar af úthaga brunnu, en hús og mannvirki sluppu. Þeir fóru yfir svæði sem er stærra en allt höfðuborgarsvæðið. Hundruð manna börðust við eldana í fjóra sólarhringa.

Frá Mýrareldum hefur Náttúrufræðistofnun Íslands reynt að kortleggja helstu svæði þar sem gróðureldar hafa komið upp í samvinnu við Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins og Náttúrustofu Vestfjarða. Að öðru leyti hefur ekki farið fram skráning á gróðureldum hér á landi. Gögnin sýna að eldarnir ná sjaldnast að breiða mikið úr sér, algengast er að þeir nái yfir frá nokkrum hektörum upp í nokkra tugi hektara. Frá Mýrareldum hafa einungis tveir eldar náð yfir meira en hundrað hektara, eldur í mýrlendi á Fáskrúðarbakka á Snæfellsnesi vorið 2015 náði yfir 319 hektara og eldur sem logaði á Skarðsströnd vorið 2008 skildi eftir sig 105 hektara af sviðinni jörð. 

Skoðar svæðið í næstu viku

Upptök eldsins í Norðurárdal eru óþekkt. Járngerður Grétarsdóttir, plöntuvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, segir að oft kvikni þessir eldar af mannavöldum og breiðist svo hratt út. Járngerður tekur þátt í kortlagningarvinnu Náttúrufræðistofnunar og ætlar að skoða svæðið sem brann í byrjun næstu viku. „Við skoðum hversu stórt svæði hefur brunnið og hvers lags gróður hefur brunnið þarna. Við höldum skrá yfir það. Svo hefur verið fylgst með hvernig svæði jafna sig eftir svona elda.“ 

Hefur þetta afdrifarík áhrif á svæði sem sviðna svona? 

„Það er misjafnt eftir því um hvers slags gróðurlendi er að ræða þegar það brennur svona þurrt land, eins og þarna er mosi, lyng og tré. Slíkt gróðurlendi brennur mun verr en þegar það er mýrlendi sem brennur. Bleytan ver oft gróðurinn.“

Eldar í mosaþembum fátíðir

Áður fyrr var hefð fyrir því að brenna sinu, oft í í mýrlendi eða graslendi. Algengast virðist vera að gróðureldar kvikni í kjarr-, gras- eða mýrlendi, en sumarið 2007 brann mosavaxið svæði á Miðdalsheiði og í júlí 2009 brann mosaþemba við Helgafell ofan Hafnarfjarðar. Í graslendi og mýrlendi eru rætur plantna yfirleitt varðar fyrir eldinum. Mosinn er berskjaldaður, plantan er öll ofanjarðar og brennur því alveg í burtu. Það gæti liðið langur tími þar til hraunið sem brann í Norðurárdal verður aftur þakið þykkri mosaþembu. „Ef þetta er ekki mjög umfangsmikið svæði geta borist mosastubbar og gró úr umhverfinu inn á svæðið, þetta jafnar sig aftur en auðvitað tekur það tíma fyrir mosann að vaxa aftur og sérstaklega að mynda þetta þykka teppi.“ 

Reynslan sýnir að yfirleitt jafnar landið sig en það gerist mishratt. Járngerður segir að í verstu tilfellunum stuðli bruninn að uppfoki. 

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Einarsson - RÚV
Við slökkvistörf í Norðurárdal í nótt.

Aukin hætta á gróðureldum

Járngerður segir að hættan á gróðureldum sé mest þar sem er mikill gróður. Gróðursæld hefur undanfarin ár aukist. Járngerður nefnir að það sé meira um friðuð svæði þar sem safnist upp mikill gróður. Minnkandi beit á beitarsvæðum getur haft sömu áhrif. Meiri gróður þýðir meiri eldsmatur og meiri hætta á gróðureldum.  „Fólk er hræddast við að þetta kvikni í kjarrlendi þar sem sumarbústaðir eru.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Í júní í fyrra var brakandi þurrkur í Skorradal.

Í júní í fyrra lýsti Ríkislögreglustjóri yfir óvissustigi vegna hættu á gróðureldum. Þetta var gert í samráði við lögreglustjórann á Vesturlandi. Það höfðu verið langvinnir þurrkar. Ríkislögreglustjóri hafði sérstakar áhyggjur af skógareldum í Skorradal þar sem er mikil sumarhúsabyggð. 

Mikilvægt að fara varlega

Það þarf að fara sérstaklega varlega með eld. Reglugerð um meðferð elds skyldar fólk til þess. Það er óheimilt að kveikja eld einhvers staðar þar sem hann getur ógnað fóli, umhverfi, dýralífi eða mannvirkjum og bændur sem vilja brenna sinu þurfa að sækja um sérstakt leyfi. 

Gróðureldar geta leitt til landeyðingar og Járngerður segir að nú sé sjónum í auknum mæli beint að kolefnislosun sem verður í gróðureldum. En ýta loftslagsbreytingar undir gróðurelda? Í skýrslu vísindanefndar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi frá árinu 2018  kemur fram að líkur á því að gróðureldar valdi verulegu tjóni komi til með að aukast á þessari öld. Í skýrslunni segir einnig að hlýnun eða gróðurbreytingar hafi stuðlað að óvenju stórum gróðureldum hér á landi.  

Tíðni gróðurelda á norrænum slóðum að aukast

Járngerður segir rannsóknir benda til þess að tíðni gróðurelda á norrænum slóðum sé að aukast, svo sem í Síberíu og í Alaska. „Þá er það tengingin við meiri gróður, meira magn, kannski ekki við veðurfarið, nema að því leyti að það er meiri gróður.“ 

Lengi viljað betri vöktun á gróðureldum

Veðurstofa Íslands innleiddi árið 2012 viðbragðsáætlun vegna gróðurelda. Hún felur í sér að sérfræðingar á Veðurstofunni miðla upplýsingum til slökkviliðsins um hvernig veðrið kann að hafa áhrif á útbreiðslu gróðurelda sem kvikna. Veðurstofan hefur líka nokkrum sinnum á síðustu árum varað við hættu á gróðureldum, en það er ekkert fastmótað verklag. Sigrún Karlsdóttir, náttúrvárstjóri Veðurstofu Íslands, segir æskilegt að koma þessu í betri farveg innan stjórnsýslunnar. Veðurstofan hafi árum saman haldið á lofti mikilvægi þess að vakta svæði með tilliti til gróðurelda og gefa út spár. Það hafi gengið hægt og fjármagn skort.

Á morgun er spáð rigningu í öllum landshlutum. Það ætti að draga úr hættu á gróðureldum í bili.