Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Arndís og Hulda fá verðlaun Guðrúnar Helgadóttur

Mynd með færslu
 Mynd: Ólafur Daði Eggertsson - Reykjavíkurborg

Arndís og Hulda fá verðlaun Guðrúnar Helgadóttur

19.05.2020 - 16:08

Höfundar

Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir hljóta Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur 2020 fyrir handrit sitt að bókinni Blokkin á heimsenda sem kemur út í dag.

Í umsögn dómnefndar um verðlaunahandritið segir að sagan sé grípandi með gamansömum tón. Þar segi frá fjölskyldu sem er vön nútímaþægindum en þurfi að segja skilið við sitt hefðbundna líf til að komast í gegnum erfiða tíma. „Það má með sanni segja að andi og arfleifð Guðrúnar Helgadóttur svífi yfir Blokkinni á heimsenda. Horft er á samfélag hinna fullorðnu með augum barnsins. Þar er ekki allt eins og best verður á kosið en með samstöðu og samhygð komast sögupersónur vel frá verki og vaxa að völdum og virðingu.“

Þetta er í annað sinn sem Reykjavíkurborg veitir verðlaunin en þau eru fyrir óprentað handrit og ætlað að hvetja til metnaðarfullra skrifa fyrir börn og ungmenni og halda á lofti merkjum eins okkar ástsælasta barnabókahöfundar. Verðlaunaféð er ein milljón krónur. Hátt á fimmta tug handrita bárust í samkeppnina í ár og var dómnefndin sammála um að handrit þeirra Arndísar Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnar Bjarndóttur, Blokkin á heimsenda, skyldi hljóta verðlaunin að þessu sinni. Dómnefndina skipuðu þau Geir Finnsson, sem var formaður, Halla Þórlaug Óskarsdóttir og Heiða Rúnarsdóttir en á lokametrunum fengu þau tvo nemendur úr 6. bekk Háteigsskóla sér til liðsinnis.

Ástandið í samfélaginu vegna Covid-19 setti nokkuð strik í reikninginn við verðlaunaafhendinguna sem var seinna í ár en ráð var fyrir gert. Borgarstjóri afhenti verðlaunin í Höfða og var brugðið á það ráð að kvikmynda athöfnina til að sem flestir mættu upplifa og njóta með höfundunum.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Margrét, Rán og Þórarinn fá barnabókaverðlaun

Bókmenntir

Sögugjöf á degi barnabókarinnar

Bókmenntir

Fimmtán tilnefnd til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur

Bókmenntir

Tilnefnd til barnabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins