Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ætlar að framleiða skíði í Skíðadal

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV/Landinn

Ætlar að framleiða skíði í Skíðadal

19.05.2020 - 12:56
„Núna er ég kominn á þann stað að ég er kominn með sjálfstraust til að segja að ég get farið að framleiða skíði,“ segir Dagur Óskarsson vöruhönnuður sem hefur unnið að því hörðum höndum undanfarin ár að hanna og smíða skíði úr íslenskum við.

„Þetta er búin að vera löng fæðing,“ segir Dagur en mikill tími hefur farið í samlímingar og prófanir auk þess sem hann hefur þurft að búa til flest verkfæri og tæki til framleiðslunnar sjálfur. „Þetta er bara einhver þráhyggja sko,“ segir Dagur og hlær.

Draumurinn er að koma sér upp litlu verkstæði þar sem hann getur sérsmíðað skíði eftir óskum hvers og eins. Og þetta ætlar hann helst að gera heima hjá sér, á Þverá í Skíðadal. 

„Hér er mikið líf og starfsemi á veturna tengt skíðum og hér eru stórkostleg fjöll og stórkostleg náttúra,“ segir Dagur. Hann er sannfærður um að ferðamenn sem koma á Tröllaskagann til að skíða niður brekkurnar kunni að meta það að geta keypt sér handunnin skíði smíðuð á staðnum. „Þetta er auðvitað þröngur hópur en ég tel að það sé markaður fyrir þetta.“

Landinn heimsótti Dag.