Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

3 milljónir í markaðssetningu Hríseyjar og Grímseyjar

19.05.2020 - 13:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Akureyrarstofa ætlar að markaðssetja Hrísey og Grímsey sérstaklega fyrir sumarið. Grímseyingur treystir því að það verði gott veður í sumar en útlendingar hafa verið mikill meirihluti ferðamanna.

Akureyrarstofa ætlar að verja allt að þremur milljónum í markaðssetningu Hríseyjar og Grímseyjar fyrir sumarið. Í henni felst meðal annars gerð kynningarefnis og birting í ýmsum miðlum.

Þórgnýr Dýrfjörð framkvæmdastjóri segir eyjarnar bjóða upp á mikla möguleika fyrir ferðamenn sem vilji frið og ró, enda geti ferjurnar bara tekið takmarkaðan fjölda farþega. Þau hafi talsverðar væntingar til átaksins en óvissan fyrir sumarið sé mikil. 

Sumarið leit vel út fyrir COVID-19

Halla Ingólfsdóttir sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Arctic Trip í Grímsey segir sumarið hafa litið mjög vel út áður en faraldurinn braust út, en langflestir ferðamenn þar hafi verið útlendingar. Áhugi íslendinga hafi þó verið að aukast síðustu ár. Þau takist á við breytta stöðu með miklu jafnaðargeði en það sé ljóst að það hafi gríðarleg áhrif ef íslendingar komi ekki heldur til eyjunnar í sumar. 

Vilja frítt í ferjuna fyrir alla

Sumarið lítur öðruvísi út í Hrísey, en þar hefur meirihluti ferðamanna verið Íslendingar. Linda María Ásgeirsdóttir, formaður ferðamálafélags Hríseyjar, segir Hríseyinga líta björtum augum á sumarið. Það sé nóg pláss fyrir alla, „og svo er bara mikið hérna eins og fyrir barnafjölskyldur og fólk sem er hrifið af náttúru og fuglum og útiveru þannig að við ætlum bara að gera út á það sem við höfum hérna“ segir Linda María. 

Þau hafa óskað eftir því að Akureyrarbær greiði ferjufargjöld í einn mánuð í sumar til þess að styrkja stöðu þeirra. Samkvæmt upplýsingum frá Akureyrarstofu kemur það til greina og er til skoðunar.