Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

140 björgunarsveitarmenn leita skipverjans

19.05.2020 - 12:45
Leit að sjómanni sem féll í sjóinn við Vopnafjörð.
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson
Hundrað og fjörutíu björgunarsveitarmenn af öllu Austurlandi leita nú að skipverja af netabáti sem kom til hafnar á Vopnafirði í gær. Leitarmenn telja sig vita hvar talið er að maðurinn hafi farið í sjóinn og miðast leitarsvæðið við allan Vopnafjörð.

Leitað var í gær, án árangurs. Björgunarsveitir tóku sér hvíld yfir nóttina og fyrstu leitarflokkar lögðu svo af stað klukkan níu í morgun. Fimmtán eru í áhöfn bátsins.

Að sögn Óskars Þórs Guðmundssonar, vettvangsstjóra lögreglunnar, ganga björgunarsveitarmenn fjörur í öllum Vopnafirði í dag. Ekki er vitað nákvæmlega hvar maðurinn féll í sjóinn en gengið sé út frá ákveðnum punkti sem talinn er líklegur. Leitarsvæðið er Vopnafjörður eins og hann leggur sig.

„Við erum með þrjú björgunarskip, eiginlega allar tegundir af smábátum, dróna og neðansjávardróna. Það eru alls konar tæki sem við beitum til leitar í dag, “ segir Óskar Þór. Þá tekur Landhelgisgæslan þátt í leitinni en TF-SIF, flugvél gæslunnar, flýgur nú yfir svæðið og myndar fjörðinn.

Aðstæður til leitar eru góðar, hægviðri og léttskýjað. Óskar segir að ekki hafi verið ákveðið hve lengi verður leitað en svæðið verður kembt eins vel og kostur er í dag.