Vilja selja hlut sinn í Drangavík á Ströndum

18.05.2020 - 16:03
Hvalá, Ófeigsfjörður, Árneshreppur á Ströndum, Virkjun
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Þrír af sextán landeigendum Drangavíkur á Ströndum hafa ákveðið að selja rúmlega tuttugu prósenta hlut sinn í jörðinni. Ástæðan er fyrst og fremst skiptar skoðanir um landamerki jarðarinnar sem gæti haft áhrif á fyrirhugaða Hvalárvirkjun.

Deilur hafa staðið yfir á milli landeigenda í Árneshreppi um landamerki og hafa meirihlutaeigendur Drangavíkur höfðað mál gegn eigendum Engjaness, Ófeigsfjarðar og Laugalands þar sem Drangvíkingar telja að landamerki jarðarinnar séu samkvæmt landmerkjabréfi frá árinu 1890.

Samkvæmt þeim landamerkjum er hluti áhrifasvæðis Hvalárvirkjunar innan landamerkja Drangavíkur. Guðrún Anna Gunnarsdóttir er ein þriggja systra sem hyggjast selja 22,5 prósenta hlut sinn í Drangavík. Hún segir að þær systur meti það sem svo að Drangavík nái ekki inn á áhrifasvæði Hvalárvirkjunnar.

„Við erum ekki sammála þeim landamerkjum sem meirihluti eigenda telur. Við förum eftir þeim landamerkjum sem faðir okkar, Gunnar Guðjónsson sagði okkur og Ingólfur, bróðir hans,“ segir Guðrún Anna.

Ekki sammála um landamerki

Álit Guðrúnar og systra hennar um legu landamerkjanna er í samræmi við þau landamerki sem Vesturverk og skipulagsyfirvöld í  Árneshreppi styðjast við vegna Hvalárvirkjunnar en framkvæmdir í tengslum við hana voru stöðvaðar nýverið.

Meirihluti landeigenda Drangavíkur telur að svæði innan við Eyvindarfjarðarvatn og Eyvindarfjarðará tilheyri Drangavík, en ekki Engjanesi. Guðrún segir að ástæða sölunnar sé fyrst og fremst ósætti milli þeirra og meirihluta eigenda Drangavíkur.

„Já, hann metur þetta öðruvísi og lét teikna kort af þessu svæði sem þau vilja segja að Drangavík eigi, sem er stærri en Drangavíkin sjálf,“ segir Guðrún.

Utanaðkomandi áhugi

Hún segir að áhugasamir kaupendur hafi haft samband við þær. Þeir séu þó ekki úr hópi meirihlutaeigenda jarðarinnar en  þeir eru 16 talsins. Lára Ingólfsdóttir, einn landeigenda Drangavíkur, segir í samtali við fréttastofu að hún hafi ekki heyrt af áformum innan landeigendahópsins um að kaupa hlut systranna.
 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi