Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vilja ávísun fyrir börnin

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
„Í lok mars var ég alveg úrræðalaus og ísskápurinn tómur.“ Þetta segir Hildur Oddsdóttir, einstæð, tveggja barna móðir. Kristín, önnur kona sem glímir við fátækt óttast að geta ekki boðið börnunum sínum á nein námskeið í sumar. Heimsfaraldurinn virðist hafa aukið á vanda þeirra sem búa við sárafátækt á Íslandi. 

 

Matarútgjöld meiri þegar börnin eru heima

„Faraldurinn er náttúrulega búinn að hafa áhrif á tekjuminnstu hópana. börnin eru meira heima, útgjöldin meiri gagnvart mat og öðru, þannig að já. Maður er búinn að finna fyrir högginu,“ segir Hildur og Kristín tekur undir. „Já, heldur betur, svo þurfum við að kaupa hanska, grímur og spritt sem er ekki ódýrt akkúrat núna, ég á móður sem er 83 ára og ég er með undirliggjandi sjúkdóm þannig að ég hef verið svolítið lokuð af og móðir mín. Þetta hefur haft mikil áhrif á okkur.“ 

Hildur hefur nýtt sér mataraðstoð Mæðrastyrksnefndar. Í faraldrinum var úthlutunum hætt, tímabundið. „Ég hef stólað á það tvisvar í mánuði að geta farið til að dekka upp það sem vantar, maður fann alveg fyrir því í lok mars að sjá ísskápinn alveg tóman. Ég var alveg úrræðalaus.“ 

Hildur segir að börnin hafi fengið minni mati en venjulega í skólanum, einhvers konar nesti. „Þau voru að koma heim miklu svangari. Í apríl þurfti ég að hliðra til reikningum og sleppa því að borga til að eiga fyrir aukaútgjöldum, aukakostnaði á mat og maður fann það bara, mér fannst matarkostnaðurinn hafa hækkað.“

Upplifun Kristínar er svipuð. „Það er sama hvað þú ætlar að gera, það er allt dýrara í dag því mörg fyrirtæki hafa þurft að herða sultarólina líka.“

Verðhækkanir og fleiri í vanda

Umsóknum um aðstoð til Hjálparstarfs kirkjunnar fjölgaði um 58,4 prósent í mars og apríl miðað við sömu mánuði í fyrra. Á sjötta hundrað fengu inneignarkort í matvöruverslun. Einnig fjölgaði mikið í hópi þeirra sem þurftu aðstoð við kaup á nauðsynlegum lyfjum. Þetta kom fram í fréttatilkynningu frá stofnuninni, þar var haft eftir Bjarna Gíslasyni, framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar, að búast mætti við því að umsóknum fjölgaði verulega með haustinu þegar uppsagnafrestur þeirra sem nú hafa misst vinnuna er liðinn. 

Verðlag hefur verið sveiflukennt undanfarið. Samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ hækkuðu margar vörur mikið milli kannanna sem gerðar voru í febrúar og apríl. Það voru líka mörg dæmi um að verð hefði lækkað eða staðið í stað milli mánaða. Á vef ASÍ segir að mestar verðhækkanir hafi orðið á ávöxtum og grænmeti en þurrvara, brauð, kex og dósamatur hafi í mörgum tilvikum einnig hækkað mikið. Verð á mjólkurvörum og hreinlætisvörum hafi aftur á móti lækkað. 

VIlja ávísun fyrir börnin

 

Mynd með færslu
 Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV
Börn að leik.

 

„Þetta er bara búið að vera mjög erfitt. Ég sé ekki fram á að við getum gert neitt í sumar, ekki neitt,“ segir Kristín áhyggjufull. 

 „Það var ekkert bara matarkostnaðurinn, sem spilaði inn í,“ segir Hildur. „Þú ert með börnin miklu meira heima og þarft að finna einhverja afþreyingu því það er allt lokað, þá reyndi maður eftir bestu getu að leyfa sér að kaupa púsl eða eitthvað sem kostaði kannski ekki mikið en þá þurfti maður auðvitað að hliðra meira til. Þegar maður er búinn að vera lengi í þessu lífi þar sem maður þarf að passa upp á hverja krónu þá er maður búinn að gera áætlun fyrir það þegar börnin eru í sumarfríi, þá er aukakostnaður, en þarna kemur þetta bara óvænt og nú eru allar afþreyingar að byrja í sumar sem er kostnaður. Ríkið er núna að hvetja fólk með þessari ferðaávísun, mér finnst að bæjarfélög eða ríkið ættu að búa til ávísun fyrir afþreyingu fyrir börn því það eru börnin sem eru búin að upplifa mest af þessum skelli, ekki fullorðna fólkið, það eru börnin.“ 

Bótaaukinn komi seint

 

 

Þær segja að öryrkjar og aðrir efnalitlir hópar hafi gleymst algerlega. Ríkið og sveitarfélögin hafi lítið stutt við þá.

Einn liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að bregðast við faraldrinum er sérstakur barnabótaauki, tekjulágir foreldrar, sem samtals höfðu meðaltekjur undir 927 þúsund krónum á mánuði í fyrra,  fá 40 þúsund krónur með hverju barni en aðrir 20 þúsund krónur.  Hildi finnst framlagið koma of seint. „Í júní þegar það hefði átt að koma í apríl, þegar fólk var meira með börnin sín heima og kostnaður miklu, miklu meiri, frekar en að vera að koma með það þegar það mesta er yfirstaðið.“ 

Reykjavíkurborg eykur stuðning við efnalitla

Í lok síðustu viku samþykkti borgarráð Reykjavíkur að styðja betur við foreldra sem fengu fjárhagsaðstoð fyrr í vor. Greidd verður eingreiðsla að upphæð 20 þúsund með hverju barni. Breytingarnar gilda í þrjá mánuði. Rýmri reglur eiga að auðvelda umsóknarferlið og fjölga þeim sem kunna að eiga rétt á aðstoðinni. 

„Kirkjan bjargaði mér“

Konurnar sem Spegillinn ræddi við segja ástandið líka hafa reynt á. Faraldurinn hafi leitt til bakslags bæði fjárhagslega og andlega. „Sem betur fer á ég heila kirkju að baki mér sem ég gat sótt til, það bjargaði mér, því að ég skyldi ekki fara alveg yfirum. Ég hefði ekki meikað þetta,“ segir Kristín sem er í Catch the fire-söfnuðinum. Sjálfboðaliðastarf sem hún sinnti og samfélagið í kirkjunni hafi hjálpað mikið. Hildur segist glíma við andleg eftirköst þessa tímabils. „Það er stór hópur þarna úti sem finnur fyrir afleiðingunum, maður er búinn að vera að byggja sig upp og svo allt í einu, að vera svona lokaður af, ég var bara ein. Maður er eiginlega að finna fyrir því í dag, svona eftir á.“