Þrír gróðureldar á höfuðborgarsvæðinu á einum degi

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Slökkviliðið á Höfuðborgarsvæðinu var kallað út á tólfta tímanum í gærkvöld vegna gróðurelda við Þorláksgeisla í Grafarholti. Þetta var þriðja útkallið vegna gróðurelda á einum degi.

Kviknað hafði í sinu í Grafarholti. Tveir dælubílar, tankbíll og sjúkrabíll voru kallaðir út vegna brunans. Búið var að ráða niðurlögum eldsins rétt fyrir miðnætti. Á meðfylgjandi myndefni má sjá þegar bleytt var frekar í gróðrinum til að fyrirbyggja það að kviknaði í að nýju. 

Samkvæmt slökkviliðsmönnum sem fréttastofa ræddi við á staðnum hafði fjöldi tilkynninga borist vegna eldsins. Mikinn reyk lagði af honum svo sást langar leiðir. 

Þetta var í þriðja skiptið á einum degi sem slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út vegna gróðurelda. Fyrst kviknaði eldur í Skammadal í Mosfellsbæ. Þá varð líka minni eldur, um fimmtán fermetrar, við Stekkjarbakka hjá Elliðarárdal.