Starfslok Finns og Guðmundar kosta Haga 314 milljónir

18.05.2020 - 17:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Samsett
Kostnaður Haga vegna starfsloka Finns Þórs Árnasonar sem forstjóra Haga og Guðmundar Marteinssonar, framkvæmdastjóra Bónus, nemur 314 milljónum. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins. Hagnaður Haga fyrir rekstrarárið nam rúmum þremur milljörðum.

Fram kom í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, að Guðmundur hefði verið með þriggja ára uppsagnarfrest og Finnur eitt ár. Báðir óskuðu þeir sjálfir eftir að láta af störfum. 

Hagar var eitt þeirra fyrirtækja sem var gagnrýnt fyrir að nýta sér hlutabótaleiðina.  Félagið endurgreiddi allan þann kostnað til Vinnumálastofnunar eða 36 milljónir.

Fram kemur í ársreikningi að félagið og dótturfélög þess hafi þó ekki farið varhluta af áhrifum kórónuveirufaraldursins og að heildaráhrif faraldursins á rekstur fyrsta ársfjórðungs, frá mars til maí, verði töluverð. 

Athygli vekur að þess er sérstaklega getið að mikið og gott samstarf hafi verið við stjórnvöld og birgja sem hafi komið í veg fyrir vöruskort.