Staða Icelandair helsta óvissan í ferðaþjónustu

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Helsta óvissan í ferðaþjónustu nú er staða Icelandair, segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Hann hefur meiri áhyggjur af óvissu sem stafar af stöðu flugfélagsins en af þeirri óvissu sem ríkir um framkvæmd sýnatöku vegna COVID-19 á Keflavíkurflugvelli sem áætlað er að hefjist 15. júní.

Rætt var við Jóhannes í Morgunúrvarpinu á Rás 2 í morgun og þar sagði hann að það skipti miklu máli að hér á landi sé flugfélag sem geti farið hratt af stað þegar ferðalög verða heimil á ný og geti nýtt leiðakerfi sem hafi verið byggt upp á löngum tíma. 

Ef við þurfum að treysta algjörlega á erlend flugfélög þá er það allt, allt önnur staða og miklu miklu verri,“ segir Jóhannes. „Einfaldlega bara út frá því að erlend flugfélög munu ekki horfa á áfangastaðinn Ísland með sömu nálgun. Þannig að ég held að já kannski akkúrat núna þá hefur maður meiri áhyggjur af því hvernig fer með úrvinnslu mála hjá Icelandair og hvernig flugið fer í gang heldur en akkúrat kannski þessum praktísku hlutum varðandi prófin.“

Samdráttur hjá Icelandair var 99 prósent í apríl og er nú unnið að því að auka hlutafé og ná langtíma kjarasamingum við flugáhafnir fyrir hluthafafund sem haldinn verður næsta föstudag, 22. maí.

Tilkynnt hefur verið að frá 15. júní geti ferðamenn komið hingað til lands og í stað þess að fara í sóttkví geti þeir farið í sýnatöku á Keflavíkurflugvelli eða framvísað staðfestingu á því að hafa farið í sýnatöku erlendis. Jóhannes segir að mikilvægt sé að það liggi sem fyrst fyrir hvernig sýnatökunni verði háttað og hve mikið hún eigi eftir að kosta fólk sem kemur til landsins. Fyrirspurninir séu farnar að berast og því sé mikilvægt að hið opinbera og fyrirtækin geti gefið samræmdar og góðar upplýsingar.