Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir marga reiða yfir því að landið verði opnað

Mynd: Dagný Hulda / Dagný Hulda
Ekki ríkir einhugur innan heilbrigðiskerfisins um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að opna landið á ný. Þetta segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans.

„Þessi ákvörðun um að opna landið er mjög umdeild. Það sýnist sitt hverjum. Margir af mínum kollegum eru mjög hugsi um þetta og jafnvel reiðir að þetta skuli vera gert,“ sagði Már í viðtali á Morgunvaktinni í morgun. 

Ákvörðunin hafi verið tekin í samráði við sóttvarnalækni. Már segir að verið sé að gera áhættumat fyrir spítalann svo hægt sé að bregðast við þessum breytingum.

„Þetta er ákveðin tilraun og efnahagsleg þrýstingsáhrif. Við getum öll verið sammála um að það er mjög alvarlegt ástand í samfélaginu, það vita það allir. Þarna takast á í raun og veru tvö sjónarmið.“ 

Ótti um að við séum að kalla yfir okkur hörmungar

Már segir að tíminn eigi eftir að leiða í ljós hversu farsæl ákvörðun þetta reynist. Viðbrögð fólks séu sterk og skiljanleg.

„Ég held að þessi sterku viðbrögð fólks séu að sumu leyti angist eða ótti um að við séum að kalla yfir okkur hörmungar, sem kann að vera að við séum að gera í ljósi þess sem við þekkjum utan úr heimi, þar sem samfélög fóru hryllilega illa út úr þessu. Við virðumst hafa sloppið fyrir horn enn þá alla vega. Mér finnst þetta vera réttmæt tilfinning hjá fólki að þetta muni kannski verða eitthvað hræðilegt tímabil. Það er alveg skiljanlegt. En þá þurfum við líka að setja okkur í stellingar og búa okkur undir þetta. Og reyna að draga þá úr áhrifum þessa sem mest við megum,“ segir hann.  

Gott mótefnasvar virðist snúast upp í andhverfu sína

Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans hóf í síðustu viku mótefnamælingar fyrir þá einstaklinga sem telja sig hafa fengið sjúkdóminn. Frumniðurstaða þessara prófa virðist vera að þeir sem svara mjög vel virðast verða veikari af kórónuveirunni en þeir sem hafa verra mótefnasvar. Gott mótefnasvar snúist þannig upp í andhverfu sína. 

„Til dæmis einstaklingar sem lágu inni á spítalanum og urðu mjög veikir, þeir voru með mjög gott mótefnasvar. Það virðist eflast eftir því sem þú eltist. Það er eitt sem kemur pínulítið á óvart. Maður hefði kannski haldið að þeir væru eitthvað slakari og það gæfi veirunni meira svigrúm að göslast um í líkamanum. En það virðist ekki vera þannig,“ segir Már.

Már segir að markmið sýnatökunnar sé að búa til einstofna mótefni sem gæti orðið vopn í baráttunni við kórónuveiruna. Verið sé að gera sambærilegar rannsóknir um allan heim. Ótal spurningum sé enn ósvarað en meðal annars sé verið að reyna að komast til botns í því hvers vegna sumir verða mjög veikir af veirunni á meðan aðrir veikist sama og ekkert. Niðurstöðurnar skýrast að öllum líkindum í sumar. 

Fréttin hefur verið uppfærð.