Segir breyttar reglur um olíutanka auka mengunarhættu

18.05.2020 - 12:58
Mynd með færslu
 Mynd: Innsend mynd
Framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra segir að hætta á mengunarslysum hafi aukist eftir að aldursmörk niðurgrafinna olíutanka voru felld niður. Gamall og lekur olíutankur á Hofsósi hafi orðið til þess að fjölskylda þar þurfti að flýja að heiman.

Í eldri reglugerð um olíutanka sem grafnir eru í jörðu var ákvæði um 25 ára hámarksaldur. Hægt var að teygja þessi mörk upp í 30 ár undir ákveðnum kringumstæðum. Þessum reglum var breytt árið 2017 og öll aldursmörk felld í burtu en í staðinn gerð krafa um aukið eftirlit með geymunum og ítarlegar kröfur um þykktarmælingar og þrýstiprófanir.

Tankar komnir yfir aldursmörk valdið mengun

Sigurjón Þórðarson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, segir þetta afturför. Það séu dæmi um mengunarslys í hans umdæmi þar sem gamlir tankar hafi tekið að leka án þess að eigendur þeirra yrðu þess varir. „Til dæmis tankurinn sem lak í Hofsósi og hefur valdið íbúum miklu tjóni. Það má rekja beint til þess að tankurinn var kominn yfir aldursmörk og það hefðu ekki verið leyfi fyrir því að hann væri starfræktur ef það hefði verið starfað eftir gömlu reglugerðinni, það er alveg á hreinu. Og síðan eru tvö önnur dæmi hér á Norðurlandi vestra, þannig ég reikna svo sem með að það sé víðar,“ segir hann.

Efast um rökin fyrir breytingunum    

Í svari frá umhverfisráðuneytinu kemur fram að aldursmörk hafi verið felld úr reglugerðinni eftir að olíufélögin hafi sýnt fram á að oft hefðu verið teknir upp geymar sem hafi verið komnir á aldur en verið í lagi. Fá dæmi hafi verið um að olía hefði lekið úr gömlum geymum vegna tæringar. Sigurjón efast um þessi rök og reynslan sýni að þetta sé ekki rétt. „Við erum bara búin að sjá afleiðingarnar af þessu, með miklu umhverfistjóni sem er ekki búið að sjá fyrir endann á. Og miklum kostnaði líka fyrir olíufélögin.“

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi