Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Opnun landsins kom eins og þruma úr heiðskíru lofti

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Fyrrum yfirlæknir COVID-19 deildar Landspítalans segir það hafa komið heilbrigðisstarfsfólki í opna skjöldu þegar yfirvöld tilkynntu um að landið verði opnað fyrir ferðamönnum með takmörkunum 15 júní.

„Það verður að viðurkennast að mér fannst þetta koma eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ég áttaði mig ekki alveg á því að við værum að fara að opna landið svona snemma. En að sama skapi, það veit enginn hvenær rétti tímapunkturinn er. Er það núna eða er það seinna? Þarna náttúrlega togast ólík hagsmunaöfl á,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson, sem gegndi stöðu yfirlæknis á COVID-19 deild Landspítalans á meðan kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst hér á landi. Deildin hefur nú verið sameinuð við göngudeild almennra lyflækninga.

Óróleg yfir planinu

„Auðvitað erum við pínu óróleg yfir þessu plani. Ég held að þarna ráði önnur sjónarmið för en heilbrigði Íslendinga og ég held að það hafi ekki átt sér stað neitt víðtækt samráð við heilbrigðisstarfsfólk um þessa opnun,“ segir Ragnar.

Már Kristinsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans, sagði í morgun að ákvörðun stjórnvalda um að opna landið væri mjög umdeild og að fólk væri hugsi og jafnvel reitt vegna hennar. Ragnar Freyr tekur undir þessar áhyggjur kollega síns.

Hefði viljað bíða lengur

„Við höfum haft gríðarlega öfluga forystu. Við sáum þennan faraldur hverfa mjög hratt, hraðar en okkur hefði órað fyrir. En eftur situr að 98 prósent landsmanna hafa ekki fengið veiruna sem þýðir að við erum enn mjög útsett fyrir henni.“ 

Ragnar Freyr segir að veiran lifi enn góðu lífi um allan heim og að hans mati hefði verið betra að bíða með opnunina þar til staðan yrði betri.

„Ég hefði viljað sjá víðtækari umræðu um opnunina. Það er verra að þurfa að loka landinu aftur en að bíða með það í nokkra mánuði. Auðvitað höfum við áhyggjur. Þetta var erfitt á meðan þetta gekk yfir. Hér veiktust 1800 manns og yfir hundrað manns þurftu að leggjast inn á sjúkrahús og 26 á gjörgæslu, og það dóu tíu. Tjónið fyrir þjóðarbúið er talið í hundruð milljarða. Ég meina, hvað mun stór bylgja kosta okkur mikið? Það er erfitt að segja,“ segir Ragnar Freyr.