Norðmenn vilja reisa 10 vindorkugarða á Íslandi

18.05.2020 - 09:27
Mynd með færslu
 Mynd: Siemens Gamesa
Tíu fyrirtæki eða sveitarfélög vilja reisa samtals 34 vindorkugarða á Íslandi. Ólíklegt er að öll ítrustu áform nái fram að ganga en þá yrði uppsett afl allra vindmyllanna á við fjórar og hálfa Kárahnjúkavirkjun.

Í síðasta mánuði sendi Orkustofnun 43 virkjanakosti áfram inn í 4. áfanga rammaáætlunar en athygli vekur að 34 kostir snúast um að virkja vindorku.

Fyrirtækið Zephyr Ísland áformar þrjá stærstu vindorkugarðana, 200 megavatta Austurvirkjun á Langanesi, 250 megavatta Lambavirkjun í Borgarbyggð og 250 megavatta Klausturselsvirkjun á Fljótsdalsheiði. Fyrirtækið er í eigu fjárfestingafélagsins Hreyfiafls og Zephyr í Noregi sem er í eigu þriggja norskra vatnsaflsfyrirtækja sem aftur eru í eigu norskra sveitarfélaga. Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Zephyr Ísland, segir að þessi mikli áhugi á því að virkja vindorku komi til af því hve kostnaður við að byggja vindmyllur hafi lækkað. „Þannig að þetta er orðið miklu hagkvæmara en það var og í dag er þetta orðið það ódýrt og það hagkvæmt að gera þetta að þetta er sennilega með ódýrustu kostum að bæta raforkuframleiðslu í kerfið,“ segir Ketill.

Zephyr hefur augastað á 10 landsvæðum undir vindmyllugarða og segir Ketill að verkefnin séu unnin í samráði við landeigendur á hverjum stað. Mælimastur hefur verið reist á Mosfellsheiði en á öðrum stöðum eru rannsóknir enn óhafnar. Reyndar hefur fyrirtækið hefur ekki enn byggt alla þá vindmyllugarða sem það hefur fengið leyfi fyrir í Noregi en af hverju horfir það þá til Íslands? „Þeir voru komnir með mikla þekkingu á því hvernig á að vinna svona verkefni. Og höfðu áhuga á því að kannski nýta þá þekkingu líka annars staðar. Þeir skoðuðu Ísland og íslenska raforkumarkaðinn og þeim leist það vel á að þeir töldu rétt að koma hingað og setja á stofn fyrirtæki hér og þróa verkefni hér,“ segir Ketill.

Ekki eftirspurn eftir allri vindorkunni hér á landi

Hann telur augljóst að ekki geti allir 34 vindmyllugarðarnir orðið að veruleika í fullri stærð á þessum litla markaði. Zephyr miði stærðina við það sem rúmist á hverju svæði en að endingu ráði eftirspurnin uppbyggingunni. Og auðvitað umhverfismat og skipulag. „Þess vegna kanna að vera að stærð einstakra verkefna verði með öðrum hætti en er líst í þessum upphaflegu hugmyndum. Ef ég man rétt þá eru þetta eitthvað í kringum 3300 megavött í vindi sem voru tilkynnt þarna inn. Það sér það hver maður að öll þá verkefni eru ekki að fara að rísa næstu árum eða áratugum. Það má hins vegar búast við því að eitthvað af þessum verkefnum verði að veruleika innan hóflegs tíma. Og þá væntanlega þau verkefni þar sem vindaðstæðurnar eru bestar, aðgengi að flutningsnetinu hvað sterkast og þar sem eftirspurn er eftir þessari raforku.“ Hann bendir á að tölur um uppsett afl í vindorkuverum séu ekki sambærilegar uppsettu afli í vatnsaflsvirkjunum. Nýtingin er betri í vatnsafli því vindmyllur framleiða aðeins rafmagn þegar vindur blæs. 

Reyndar er óvíst að vindorka þurfi samþykki Alþingis í rammaáætlun og fer starfshópur þriggja ráðuneyta nú yfir það mál. Virkjanir yfir 10 megavött þurfa í umhverfismat og þá þarf að breyta skipulagi sveitarfélaga.

Á vef Orkustofnunar má kynna sér lista yfir alla virkjanakosti sem sendir voru til verkefnastjórnar vegna 4. áfanga rammaáætlunar. 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi