Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mikil gleði í sundlaugum þegar þær voru opnaðar á ný

18.05.2020 - 02:44
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Fólk í Reykjavík beið í röðum eftir því að komast í sund nú á miðnætti. Sundgestir töldu niður síðustu sekúndurnar þegar leið að opnun.

Sundlaugum landsins var gert að loka 24. mars vegna kórónuveirufaraldursins. Nú opna þær á ný tveimur mánuðum síðar. Sundlaugar í Reykjavík voru opnaðar á miðnætti. 

Steinþór Einarsson, forstöðumaður ÍTR, segir í samtali við fréttastofu að laugarnar hefðu verið fljótar að fyllast. Tvö til þrjú hundruð manns hefðu beðið í röðum eftir því að komast í sund. 

"Þetta byrjar eiginlega bara með látum. Ég er staddur í Sundhöll Reykjavíkur og hér er uppselt. Ég var niðri í Laugardalslaug upp úr hálf tólf og þá náði röðin lengst út á bílastæði, það voru örugglega tvö til þrjú hundruð manns í röð klukkan hálf tólf," segir Steinþór.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndefni var glatt á hjalla og það staðfestir Steinþór. Hann segir gleði ríkja í sundlaugunum, bæði á meðal gesta og starfsfólks. 

Flestir gestanna voru ungmenni og höfðu mörg þeirra sem fréttastofa gaf sig á tal við beðið í röð síðan klukkan tíu um kvöldið. Þau ætluðu sér að vera í sundi sem lengst, jafn vel fram á morgun.

Beðið eftir að því að komast í sund þegar  sundlaugar reykjavíkur opnuðu á miðnætti eftir tveggja mánaða lokun í kórónuveirufaraldrinum
Röð við Vesturbæjarlaug