McIlroy og Johnson unnu er 800 milljónir söfnuðust

Mynd með færslu
 Mynd: The Open

McIlroy og Johnson unnu er 800 milljónir söfnuðust

18.05.2020 - 17:15
Norður-Írinn Rory McIlroy og Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson fögnuðu sigri á TaylorMade-góðgerðamótinu sem fram fór í Flórída í Bandaríkjunum í nótt. Alls söfnuðust um 5,5 milljónir bandaríkjadala, tæplega 800 milljónir króna, sem renna til baráttunnar gegn útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur COVID-19.

Mótið var á vegum bandarísku PGA-mótaraðarinnar og er um að ræða fyrsta alþjóðlega golfmótið sem sýnt er frá í beinni útsendingu í þónokkrar vikur. Keppt var í holukeppni með svokölluðu „skins“ fyrirkomulagi. Tvö pör, McIlroy og Johnson annars vegar og Rickie Fowler og Matthew Wolf hins vegar, kepptu um peninga á hverri holu. Peningurinn fluttist þá yfir á næstu holu tækist hvorugu parinu að hafa betur á holunni á undan.

Fowler og Wolff voru með undirhöndina framan af og leiddu eftir tólf holur. Það var hins vegar jafnt eftir holurnar 18 og þurfti því að grípa til bráðabana. McIlroy sló þar næst holu og tryggði liði sínu sigurinn. McIlroy og Johnson söfnuðu alls 1,85 milljónum en Fowler og Wolff 1,15 milljónum. Þá safnuðist um 1,5 milljón bandaríkjadala til viðbótar í gegnum áheit áhorfenda.

5,5 milljónir dala, eða tæplega 800 milljónir króna, söfnuðust því í heildina og rennur sá peningur til góðgerðasamtaka og baráttunar gegn útbreiðslu COVID-19.