Göngufólk getur nú gengið örna sinna við Esjuna

18.05.2020 - 14:37
Salerni við Esjurætur
 Mynd: Reykjavíkurborg
Þremur salernum hefur verið komið fyrir hjá Mógilsá við upphaf gönguleiðarinnar á Esjuna. Næstu daga á að tengja salernishúsið við lagnir og ganga frá umhverfi þess. Gert er ráð fyrir að salernin verði opnuð í næsta mánuði. Áætlaður kostnaður við verkið, sem er a vegum Reykjavíkurborgar, er 35-40 milljónir króna að sögn fulltrúa borgarinnar.

Um 100 þúsund manns ganga stíginn á ári hverju. Í síðustu viku hófust viðgerðir á gönguleiðinni upp að Steini en undirlagið þar var orðið lélegt og skapaði beinlínis slysahættu.

Fréttin hefur verið uppfærð. Áður stóð að áætlaður kostnaður væri 18 milljónir en þær upplýsingar fengust frá borginni að  raunkostnaður væri 35-40 milljónir.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi