Gert að víkja úr dómsal í handrukkunar-máli

18.05.2020 - 20:46
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Landsréttur hefur gert fjórum af fimm sakborningum í handrukkunarmáli á Akureyri að víkja úr dómsal á meðan sá sem varð fyrir árás þeirra gefur skýrslu fyrir dómi. Mönnunum fimm er gefið að sök að hafa svipt hann frelsi sínu í meira en fimm klukkustundir til að knýja á um greiðslu skuldar við einn sakborninganna. Þá sneri Landsréttur við úrskurði sama dómstóls í öðru máli og gerði tveimur mönnum að víkja úr dómsal á meðan maður sem þeir eru sagðir hafa stungið ítrekað gefur skýrslu fyrir dómi.

Í fyrrnefnda málinu er vitnað til vottorðs geðlæknis þar sem kemur fram að maðurinn upplifi „stöðugan ótta og aðsóknarkennd við handrukkara, þá sömu og sviptu hann frelsi og beittu ofbeldi.“

Hann hafi þurft að leggjast inn á geðdeild og lýst hræðslu sinni við að mennirnir kæmu heim til hans og veittust að honum eða réðust á hann á víðavangi.  Læknirinn meti það svo að verulegar líkur séu á því að nærvera mannanna geti orðið honum sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð hans.

Í ákæru kemur fram að maðurinn hafi meðal annars verið klipinn með töng, slegin með hamri og vírbursta og skærum stungið upp í nasir hans. Þá hafi hann verið brenndur á höndum með sígarettu. 

Í síðarnefnda málinu var lögð fram umsögn sálfræðings. Sú árás átti sér stað í október fyrir þremur árum við Glerárkirkju. Þar var maður stungin og skorin ítrekað þannig að hann hlaut meðal annars loftbrjóst. Sálfræðingurinn segir í umsögn sinni að maðurinn hafa orðið mjög stressaður við að rifja upp atburðinn og hafi greinilega forðast áreiti sem tengist honum. 

Hann hafi verið í felum til að byrja með og byrjað að vígbúast eftir árásina af ótta við að verða aftur fyrir henni. Hann sé enn hræddur við árásarmennina og óttist að mannorð hans hafi beðið hnekki eftir þessa árás.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV