Gengur illa að slökkva gróðurelda í Borgarfirði

18.05.2020 - 18:08
Sinubruni.
 Mynd: Gísli Einarsson
Slökkvilið Borgarbyggðar vinnur nú að því að slökkva eld í gróðri í grennd við Bifröst. Bjarni Þorsteinsson slökkviliðsstjóri segir í stuttu samtali við fréttastofu að um nokkurn eld sé að ræða en hann getur ekki lagt mat á umfangið. Allur tiltækur mannskapur var boðaður út en illa gengur að slökkva eldinn. Hann telur að ekki sé hætta á að eldurinn breiðist í byggð eða valdi tjóni.

Bjarni segir að verið sé að nota dróna til að meta umfang eldsins því hafi því verið beint til flugvéla að halda sig í fimm kílómetra radíus frá eldinum. Á vef Skessuhorns kemur fram að eldurinn sé á 2 til 3 hektara svæði nokkru neðan við fossinn Glanna á móts við Veiðilæk. Þar segir jafnframt að á svæðinu sé mosavaxið hraun og kjarr.

Töluvert hefur verið um gróðurelda síðustu daga. Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sinnti meðal annars þremur útköllum vegna þess í gær. Fyrst kviknaði eldur í Skammadal í Mosfellsbæ. Þá varð líka minni eldur, um fimmtán fermetrar, við Stekkjarbakka hjá Elliðarárdal áður en viknaði í við Þorláksgeisla í Grafarholti.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV