„Forseti vor er valinn af Guði“

18.05.2020 - 19:49
Mynd: EPA-EFE / EFE
Borgarstjóri Sao Paulo í Brasilíu segir að sjúkrahús borgarinnar séu við það að bresta undan álagi. Nærri 250 þúsund hafa verið greind með Covid-19 í Brasilíu. Forseti Brasilíu var glaður í bragði og umkringdur stuðningsfólki í gær.

Brasilía hefur tekið fram úr bæði Ítalíu og Spáni samkvæmt tölum frá Johns Hopkins sjúkrahúsinu um flest greind smit. Ríflega 244.000 hafa greinst með COVID-19 og meira en 16.000 dauðsföll eru skráð af völdum sjúkdómsins.

Margir styðja forsetann

Talsverð togstreita hefur verið í Brasilíu um hvernig eigi að takast á farsóttina. Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að taka of létt á málum en hann hefur verið talsmaður þess að halda verði efnahagslífinu gangandi. Ekki eru þó allir ósammála forsetanum, samkvæmt þessum myndum sem hann dreifði sjálfur var hópur fólks saman kominn við forsetahöllina í gærmorgun til þess að sýna honum stuðning. Og sunnudagurinn var greinilega annasamur hjá Bolsonaro því síðdegis var hann mættur á bænastund með hermönnum. „Við erum blessuð þjóð af Guði. Og forseti vor er valinn af Guði,“ sögðu hermennirnir í kór. 

epa08428638 Brazilian President Jair Bolsonaro gestures as he attends a rally with supporters at Esplanada dos Ministerios, in Brasilia, Brasil, 17 May 2020.  EPA-EFE/Joédson Alves
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Jair Bolsonaro var umkringdur stuðningsmönnum í gær.

Rússnesk rúlletta með líf fólks

Í gær flykktust stuðningsmenn forsetans í Sao Paulo einnig út á götur til að mótmæla aðgerðum gegn útbreiðslu veirunnar. Á sama tíma segir Bruno Covas borgarstjóri að heilbrigðiskerfið í þessari stærstu borg landsins sé að hruni komið. Ríkisreknir spítalar geti varla tekið við fleirum og þeir verði líklega orðnir yfirfullir innan tveggja vikna. Þá segist hann eiga í viðræðum við ríkisstjóra um að setja á strangt útgöngubann og sakaði þau, sem hlýða ekki tilmælum um að halda sig heima, um að spila rússneska rúllettu með líf fólks.