Ferðamenn vörðu 284 milljörðum í fyrra

18.05.2020 - 11:28
Mynd með færslu
Ferðamenn í Dimmuborgum. Mynd: Birgir Þór Harðarson
Erlendir ferðamenn vörðu 284 milljörðum hér á landi í fyrra. Þeir keyptu veitinga- og gistiþjónustu fyrir rúmlega 109 milljarða sem voru hæstu útgjaldaliðirnir. Þá vörðu þeir 75,7 milljörðum í tómstundir og menningu. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands um einkaneysluútgjöld erlendra ferðamanna hér á landi í fyrra.

Útgjöld erlendra ferðamanna hafi samsvarað um 21,4% af mældri einkaneyslu hér á landi í fyrra, samkvæmt tölum Hagstofu.

Í veitinga- og gistiþjónustu skiptist var 50,4 milljörðum varið í veitingar og um 58,7 milljörðum í gistingu. 

Ferðir og flutningar voru þriðji stærsti útgjaldaflokkur erlendra ferðamanna hér á landi, um 15,8% af heildareinkaneyslu þeirra. Undir það falla útgjöld tengd samgöngum, meðal annars vegna leigu á bílum, rútuferðir og kaup á eldsneyti. Útgjöld til ferða og flutninga námu um 45 milljörðum í fyrra.

Fjórði stærsti útgjaldaflokkurinn var matur og drykkjarvörur, 22,5 milljarðar. Þar á eftir koma aðrar vörur og þjónusta, 10,7 milljarðar; föt og skór, 9,1 milljarður; áfengi og tóbak, 5,4 milljarðar; og heilsugæsla 2,2 milljarðar.

Þessi neysluflokkun byggist að stærstu leyti á upplýsingum sem eru fengnar úr gögnum um greiðslukortaveltu og atvinnugreinaflokkun innlendra söluaðila.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi