Fækkun skordýra áhyggjuefni

18.05.2020 - 14:08
Mynd: Arnar Þórisson / Kveikur
Hafdís Hanna Ægisdóttir fjallaði um skordýr og mikilvægi þeirra fyrir vistkerfi plánetunnar í umhverfispistli í Samfélaginu á Rás 1.

Vorboðar stórir og smáir

Langþráð vorið er komið eftir langan og strangan vetur. Sólin hækkar á lofti og vermir kóvíd-krumpaða kroppana okkar, grasið grænkar og farfuglarnir koma hver á fætur öðrum örþreyttir eftir flugið yfir hafið. Sumir hverjir eiga langa ferð að baki; spóinn alla leið frá vetrarstöðvum sínum í Vestur-Afríku og krían – sem flýgur fugla lengst – alla leið frá vetrarstöðvum í Suður-Atlantshafi og Suður-Íshafi.

Aðrir vorboðar hafa líka látið á sér kræla. Stórar og stæðilegar hunangsflugudrottningar hafa vaknað af vetrardvalanum og hefjast nú handa við að nærast og byggja bú. Já, lífið er svo sannarlega að vakna allt í kringum okkur; farfuglarnir, gróðurinn og skordýrin – já blessuð skordýrin. 
Í dag, kæri hlustandi, langar mig sérstaklega að fjalla um skordýr; hvað einkennir þau, af hverju þau eru mikilvæg og hver staða þeirra er á Íslandi og annars staðar í heiminum. 

Sumir eru ekkert sérstaklega hrifnir af skordýrum. Pattaralegar og meinlausar hunangsflugur eru í lagi, jú og fiðrildi geta verið falleg en geitungar og fjárans lúsmýið er mörgum til ama. En það verður ekki af skordýrunum tekið að þau eru mjög fjölbreyttur og mikilvægur hópur dýrategunda. Skordýr eru líka tegundaríkasti flokkur dýra sem fyrirfinnst í heiminum en yfir einni milljón tegunda hefur nú þegar verið lýst sem er um 90% þekktra dýrategunda og um helmingur þekktra lífvera heimsins.  Ef við vigtuðum öll þessi ósköp af skordýrum þá myndu þau vega 70 sinnum meira en allt mannkynið samanlagt. Það er þó talið að fjöldi skordýrategunda sé í raun mun meiri en sú milljón sem nú er þekkt. Já, fjöldinn er talinn vera allt að 10 milljónir tegunda. Það eru því sannarlega næg verkefni fyrir skordýrafræðinga framtíðarinnar við að lýsa nýjum tegundum – líklega flestum í framandi regnskógum. 

Mörg og mismunandi

Af hverri skordýrategund eru svo ansi margir einstaklingar – í raun svo margir að talið er að um 1,4 milljarðar skordýra séu á hvert mannsbarn en mannkynið telur nú tæplega 7,8 milljarða manna – og reiknið nú. 
Skordýr finnast í nær öllum búsvæðum jarðarinnar, frá heimskautasvæðum og háfjöllum til heitustu eyðimarka og regnskóga. Skordýr eiga sér langa sögu og komu fram fyrir um 350 milljónum ára – fyrir tíma risaeðla og blómplantna. Stærsta ættkvísl skordýra eru bjöllur en um 300-400 þúsund tegundum bjallna hefur nú þegar verið lýst. 

En hvað gerir skordýr að skordýrum? Já, það getur verið snúið að greina skordýr frá öðrum landhryggleysingjum en það eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga. Skordýr hafa sex fætur og þrískiptan búk sem greinist í höfuð, frambol og afturbol. En bíðið nú við – eru köngulær með sína átta fætur og tvískipta búk þá ekki skordýr? Nei, mikið rétt. Köngulær eru ekki skordýr heldur tilheyra svokölluðum klóskerum.  

Önnur greiningareinkenni skordýra eru t.d. tveir fálmarar sem standa út úr höfðinu milli tveggja samsettra augna og gegna hlutverki lyktar- og snertiskyns. Sumar skordýrategundir, líkt og fiðrildi sem lifa á fljótandi fæðu, hafa einnig sograna. Og svo eru það skordýrin sem hafa brodd sem notaður er óspart til að nærast á fórnarlömbum sínum með því að sjúga úr þeim blóð. „Ef þú heldur að þú sért of lítill til að skipta máli, prófaðu að sofa með moskítóflugu" – sagði Dalai Lama réttilega. 

Margar skordýrategundir gangast einnig undir svokallaða myndbreytingu. Gott dæmi um myndbreytingu er hjá fiðrildum sem byrja líf sitt sem egg og lirfur, breytist svo í púpur og verður loks að fiðrildum. 
Mikilvægi skordýra í náttúrunni er ótvírætt. Skordýr gegna mikilvægu hlutverki við frævun blóma og eru nauðsynleg við niðurbrot og rotnun lífrænna efna. Í fæðukeðjunni eru skordýr mikilvægur hlekkur. Þau eru fæða fyrir fugla, spendýr, froskdýr, skriðdýr og meira segja sumar plöntur. Í íslensku flórunni finnast þrjár tegundir skordýra- eða kjötæta; lyfjagras, blöðrujurt og sóldögg sem er hugsanlega útbreiddasta kjötætan meðan plantna. Í stórvirkinu Flóra Íslands sem nýverið kom út er veiðitækninni lýst. Í tilfelli lyfjagrass fer veiðin svona fram. Á efra borði blaðanna eru tvenns konar kirtilhár; stilkuð kirtilhár sem gefa frá sér slímkenndar fjölsykrur sem festa flugur sem setjast á blaðið og kirtlar sem sitja í yfirhúðinni og mynda meltingarensím sem brjóta skordýrin niður. Já, lífríkið er ótrúlega magnað!

Fækkun veldur áhyggjum

Á síðustu misserum hefur hver rannsóknin og skýrslan á fætur annarri komið fram um ástand vistkerfa jarðarinnar, m.a. um ástand skordýrategunda heimsins. Og ástandið og horfurnar eru því miður ekki góðar þegar kemur að skordýrunum og því sannarlega ástæða til að grípa i taumana enda eru skordýr afar mikilvæg í vistkerfum jarðarinnar eins og fram hefur komið – mikilvæg fyrir dýr og sumar plöntur, mikilvæg fyrir niðurbrot og rotnun lífrænna efna og mikilvæg fyrir frævun plantna, m.a. ýmsar þekktar fæðutegundar úr jurtaríkinu. 

Nýverið kom út áhugaverð vísindagrein í tímaritinu Science þar sem teknar voru saman niðurstöður frá 166 langtíma rannsóknum á skordýrum frá tæplega 1700 rannsóknarsvæðum. Niðurstöðurnar sýna fram á verulega fækkun á magni skordýra á síðustu 30 árum – eða um 25% og er fækkunin mest í Evrópu á síðustu árum. Skordýrum á landi hefur fækkað en skordýrum sem lifa í ferskvatni hefur hins vegar fjölgað þökk sé átaki við að hreinsa mengaðar ár og vötn. Fjölgun vatnaskordýra er vissulega gleðiefni en þau telja þó aðeins um 10% af heildarfjöldanum og fræva ekki nytjaplöntur. Rannsóknin leiddi líka í ljós hve skordýr hafa lítið verið rannsökuð í sumum heimshlutum, sér í lagi í Suður-Ameríku, Afríku og Suður-Asíu en hætta er á að skordýrum hafi fækkað þar verulega vegna breytinga á landnotkun þar sem náttúruleg búsvæði þeirra hafa verið tekin undir þéttbýli og landbúnað. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að fækkun skordýra sé almennt vegna þess að búsvæðum þeirra hefur verið eytt og vegna skordýraeiturs og ljósmengunar á meðan áhrif loftslagsbreytinga eru óljósari. 

Aðrar nýlegar rannsóknir hafa hins vegar sýnt fram á að loftslagsbreytingar hafa jákvæð áhrif á skordýr sem klára lífsferilinn yfir styttri tíma og við hærra hitastig og geta því orðið að plágum. Slíkar skordýraplágur geta því valdið enn meiri usla og uppskerubresti en ella ef þær herja t.d. á nytjaplöntur sem eru undir auknu álagi vegna hita og þurrka. 

Hver er þá fjöldi skordýra á Íslandi? Hér á landi hefur skordýrum fjölgað með hlýnandi loftslagi og meiri gróðurþekju en samkvæmt vef Náttúrufræðistofnunar Íslands eru tæplega 1400 tegundir hér landlægar og um 280 tegundir hafa slæðst til landsins með innfluttum varningi.  Hvað getum við gert hér á Íslandi til að stuðla að heilbrigðri skordýrafánu í heimi þar sem skordýrum fer fækkandi? Fyrir utan að taka vel á móti hunangsflugudrottningunum á vorin og brosa framan í mykjufluguna – væri ágætis byrjun að hætta garðaúðun sem drepur ekki bara óæskilegu skordýrin heldur líka þau sem stuðla að heilbrigðu vistkerfi. Það er nefnilega farsælast til lengri tíma litið að vera með náttúrunni í liði.
 

 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi